FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 25. MARS 2025

Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2025 til 2030.

Á síðasta ári hægði á hagvexti eftir mikinn vöxt árin á undan. Samkvæmt þjóðhagsreikningum jókst verg landsframleiðsla um 0,5% árið 2024. Horfur eru á 1,8% hagvexti í ár og að hann verði drifinn áfram af aukinni innlendri eftirspurn á meðan framlag utanríkisviðskipta verður neikvætt. Árið 2026 er talið að verg landsframleiðsla aukist um 2,7%, einkum vegna bata í utanríkisviðskiptum og aukinni einkaneyslu. Árið 2027 er reiknað með 2,8% hagvexti á breiðum grunni.

Dregið hefur úr verðbólgu síðustu misseri og í febrúar hækkaði vísitala neysluverðs um 4,2% frá fyrra ári. Húsnæði hefur verið helsti drifkraftur verðbólgunnar en án húsnæðis hækkaði neysluverðsvísitalan um 2,7% í febrúar. Horfur eru á að verðbólga hjaðni áfram. Dregið hefur úr spennu í hagkerfinu, kjarasamningar til lengri tíma hafa skapað fyrirsjáanleika í launaþróun og hægst hefur á húsnæðismarkaði. Í ár er reiknað með að vísitala neysluverðs hækki um 3,5% að meðaltali á milli ára. Árið 2026 er spáð að verðbólga verði 2,7% að meðaltali en nálægt verðbólgumarkmiði eftir það.

Atvinnuleysi var að meðaltali 3,4% árið 2024 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vísbendingar eru um að atvinnuleysi sé að aukast en skráð atvinnuleysi hefur farið hækkandi. Spáð er auknu atvinnuleysi í ár sem verði að meðaltali 4% og 4,1% árið 2026. Kjarasamningar hafa verið undirritaðir til langs tíma á langstærstum hluta vinnumarkaðarins. Í spánni er gert ráð fyrir að launaþróun verði í takt við umsamdar launahækkanir og að launavísitala miðað við fast verðlag hækki um 2,7% í ár og 1,7% árið 2026.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 4. nóvember og er næsta útgáfa fyrirhuguð í júní nk.

Þjóðhagsspá — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.