FRÉTT UMHVERFI 20. JÚNÍ 2022

Losun koltvísýringsígilda vegna flutninga með flugi á fyrsta ársfjórðungi 2022 var um 86 kílótonn samkvæmt bráðabirgðarútreikningi á losunarbókhaldi innan hagkerfis Íslands. Þetta er nær fjórföldun miðað við losun á sama ársfjórðungi í fyrra. Þessi aukning í losun vegna flutninga í flugi skýrist af afléttingu samgöngutakmarkana eftir kórónuveirufaraldurinn.

Losunin 2022 er samt sem áður umtalsvert lægri en mesta losun á fyrsta ársfjórðungi en hæsta gildið var 541 kílótonn árið 2018. Gildið 2022 er því 16% af hæsta gildinu.

Losun frá heimilum svipuð og í fyrra
Samkomutakmarkanir höfðu ekki marktæk áhrif á losun vegna aksturs heimilanna, en gildi fyrsta ársfjórðungs 2022 er um 3,8% lægra en árið áður. Losunin 2022 er nokkuð lægri en á fyrsta ársfjórðungi 2020 en fyrstu samgöngutakmarkanir tóku gildi á öðrum ársfjórðungi 2020. Í gögnunum sést því nokkur samdráttur í losun á öðrum, þriðja og fjórða ársfjórðungi ársins 2020, en losun hefur síðan færst nær því sem mældist fyrir faraldurinn.

Á seinni helmingi ársins 2021 fjölgaði skráningu rafmagnsbíla hjá heimilum nokkuð og áhrifa þessa virðist vera farið að gæta í tölunum hér. Þessi greining byggir á sölu eldsneytis á bensínstöðvum og akstursskráningu ökutækja en áætlanir eru gerðar fyrir ný ökutæki sem ekki hafa enn komið til skoðunar.

Losun frá iðnaði eykst um tæp 14% á milli ára
Losun frá iðnaði á fyrsta ársfjórðungi var 13,9% hærri árið 2022 miðað við sama tímabil árið áður. Nokkur aukning var í losun iðnaðar á þriðja og fjórða ársfjórðungi 2021 en þessi framleiðsluaukning er í takt við hærra markaðsverð á áli. Losunargildi síðustu þriggja ársfjórðunga hafa verið þau hæstu sem sést hafa hingað til. Losunin byggir hér á inn- og útflutningi iðnaðarvöru auk skráðrar eldsneytisnotkunar hjá lykil iðnfyrirtækjum.

Tölurrnar sem hér eru birtar eru úr bráðabirgðarreikningum fyrir hagkerfisbundna losun gróðurhúsalofts á Íslandi. Í þessum reikningum er litið til losunar vegna reksturs íslenskra aðila hvar sem hann á sér stað í heiminum og er notuð sama skilgreining og í þjóðhagsreikningum.

Hér er því um að ræða annað umfang en notað er í losunarbókhaldi Íslands, sem Umhverfisstofnun útbýr ár hvert. Í losunarbókhaldi Íslands er tekin saman losun sem á sér stað innan landsvæðis Íslands sem þýðir að millilandaflug, siglingar og rekstur Íslendinga erlendis er ekki tekinn með í reikninginn. Losunarbókhald Íslands nær einnig yfir losun vegna landnotkunar og landbreytinga sem ekki eru hluti af rekstri hagkerfisins og telst því ekki með í hagkerfisbundnu losuninni.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.