FRÉTT UMHVERFI 29. NÓVEMBER 2021

Innlend efnisnotkun (e. Domestics Material Consumption) árið 2020 er áætluð 6.069 þúsund tonn, eða 16,7 tonn á einstakling, sem er 16% minni notkun en árið áður. Á milli 2018 og 2019 dróst efnisnotkun saman um 18%. Í greiningum Evrópusambandsins er efnisnotkun, og þá sérstaklega efnisnotkun á einstakling, mælikvarði á umhverfisálag hagkerfa. Uppfærðir reikningar sýna að efnisnotkun á einstakling á Íslandi er sambærileg eða lægri en efnisnotkun annarra Norðurlanda en heldur hærri en meðal efnisnotkun innan sambandsins.

Mælikvarðinn reiknast sem samtals magn innfluttrar vöru og magn efnis sem kemur úr náttúru landsins að frádregnum útflutningi. Í efnistöku úr náttúru er lagt saman magn uppskeru, veiði villtra dýra og nám jarðefna sem notuð eru til framkvæmda svo sem til vegagerðar, húsbygginga og annarra framkvæmda. Þessi skilgreining hækkar því nokkuð efnisnotkun hjá þjóðum sem byggja hús úr steinefnum og hvar hafnar- og vegaframkvæmdir kalla á mikla efnisnotkun. Þetta skýrir að hluta til af hverju Norðurlöndin eru með efnisnotkun yfir meðaltali í Evrópu. Magntölur fyrir jarðnám eru nokkuð ónákvæmar sem skýrir sveiflur í efnisnotkun á milli ára.

Í efnisflæðireikningum er gerður greinarmunur á hvort inn- og útflæði úr hagkerfinu sé í formi hráefnis, iðnaðarvöru eða fullunninnar vöru (neytendavöru eða vöru sem er nýtt eins og hún er). Efni er síðan flokkað niður í yfir- og undirflokka þar sem yfirflokkarnir eru steinefni, efni úr lífríkinu, málmar og málmsölt, úrgangsefni, jarðolíuefni eða önnur efni (blöndur efnaflokka). Einnig er gerð tilraun til þess að meta hversu mikið af efnunum skilar sér aftur út í nærumhverfið sem skólp eða frárennslisvatn, í útblæstri eða anarri óafturkræfri losun (hér nefnt fráfall).

Ef efnisflæði Íslands er skoðað á þessu sniðmáti er rúmlega helmingur af hráefni sem kemur úr náttúru landsins í formi steinefna en afgangurinn kemur úr lífríkinu (sem veidd dýr og uppskera til manneldis eða dýraeldis). Af efnum úr lífríkinu fer hlutur út sem afskurður, vatn eða annar úrgangur. Hér hefur ekki tekist að gera fullnægjandi áætlun á því hversu stórum hluta þessa efnis er fargað.

Rúmlega helmingur af innfluttu magni eru málmar (málmoxíð) sem notaðir eru í framleiðsluferlum en súrefni bundið í málmoxíðum er losað í þeim. Af þessum völdum er innflutningur málmefna hærri en útflutningur.

Bróðurpartur innfluttrar neytendavöru er eldsneyti og kol sem endar í útblæstri út í náttúruna. Mismunur efnis innflæðis og útflæðis (fráfall og útfluningur) er annar mælikvarði á raunverulega efnisnotkun hagkerfisins.

Talnaefni fyrir efnisflæðireikninga hefur verið uppfært á gagnavef Hagstofu Íslands og nær nú frá 1990 til 2020. Á sama tíma hafa viðaukatöflur, sem eru tilraunaverkefni tengt þeim, verið uppfærðar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.