FRÉTT UMHVERFI 10. JÚNÍ 2020

Efnisflæðireikningur hagkerfisins gerir grein fyrir þyngd á innflutningi, útflutningi og efnismagni sem tekið er úr náttúrunni inn í hagkerfið. Efnissöfnun, sem er skilgreind sem samtala af innflutningi og efnistöku úr náttúru að frádregnum útflutningi, er einn af lykil vísum sem sóttir eru í efnisflæðireikninginn og notaður til þess að bera saman efnissöfnun sem á sér stað í mismunandi hagkerfum. Eðli málsins samkvæmt er efnissöfnun á einstakling há fyrir hagkerfi þar sem námuvinnsla er mikil, eins og raunin er í Finnandi og Eistlandi. Einnig eru hagkerfi sem eru strjálbýl almennt með háa efnissöfnun á einstakling enda þarf þar mikið efni til að byggja upp innviði.

Í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir er íslenskt hagkerfi almennt með hátt gildi fyrir efnissöfnun á einstakling. Ástæðan fyrir þessu, til viðbótar við hversu mikla efnistöku þarf til að byggja vegi og mannvirki, er að bæði málmvinnsla og veiðar taka til sín umtalsvert þyngra efni en þyngd efnis sem skilar sér í útflutningi. Ísland var með hæstu efnissöfnun á einstakling í Evrópu á árunum sem verið var að byggja Kárahnjúkavirkjun, enda var um að ræða stærstu einstöku framkvæmd í Evrópu á þeim tíma. Á árunum 2016 og 2017 varð aftur mikil aukning í efnissöfnun vegna aukins innflutnings flugeldsneytis. Breytingar í efnissöfnun á einstakling getur þannig stafað af margvíslegum ástæðum og er mikilvægt að hafa það í huga, ekki síst við samanburð á milli landa.

Efnisflæðireikningar hagkerfisins eru einn af skilgreindum umhverfisreikningum sem Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat kallar eftir og eru samanburðartölur milli landa aðgengileg á gagnavef stofnunarinnar. Þessir reikningar fyrir Ísland eru nú birtir í fyrsta sinn á gagnavef Hagstofunnar. Nánari greinargerð um flokkunarkerfi og hvernig þessir reikningar byggjast upp er aðgengileg á vef Hagstofu Íslands.

Samhliða þessari útgáfu hefur flokkun á talnaefni um umhverfi verið endurskipulagt, auk þess voru flokkarnir orkumál og samgöngur færðir undir umhverfi, en þeir voru áður undir atvinnuvegum.

Upplýsingar í efnisflæðireikningum - Greinargerð

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.