Flatarmál þess lands sem telst skógur eða gróin svæði jókst um 1.043 ferkílómetra á tímabilinu 1990 - 2020. Á sama tíma hefur flatarmál byggðra svæða, sem eru vegir, iðnaðarsvæði, hafnir, flugvellir og íbúabyggðir, vaxið um 134 ferkílómetra. Breytingin hefur verið á kostnað lands sem telst gróðurlaust (annað land), sem hefur minnkað um 1.032 ferkílómetra, votlendis, sem hefur dregist saman um 119 ferkílómetra, og ræktarlands sem hefur minnkað um 26 ferkílómetra.

Útreikningar á losun gróðurhúsalofts í losunarbókhaldi Íslands, sem Umhverfisstofnun sendir til Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna í flokknum landnotkun, landbreytingar og skógrækt (LULUCF), er byggður á tölum um breytingar á landnotkun. Þessi landnotkunarhluti er langstærsta uppspretta losunar gróðurhúsalofts frá Íslandi. Umræðan um hvernig hægt sé að draga úr losun frá Íslandi er því oft á þeim forsendum að auka þurfi landgræðslu og endurheimt votlendis.

Landsvæði sem teljast gróin svæði geta verið svæði sem voru áður tún og akrar en hafa ekki verið í ræktun undanfarin 20 ár. Uppgræðsla á auðnum getur einnig gert það að verkum að landsvæði færast úr ógrónu landi (annað land) yfir í þennan flokk en slíkt gerist einnig án aðkomu ræktenda. Hins vegar má gera ráð fyrir því að þeir 489 ferkílómetrar af landi sem hafa umbreyst í skóga hefðu ekki gert það án aðkomu áhugasamra ræktenda og minni beitar í kjarrskógum.

Sú landbreyting sem vegur hins vegar mest í útreikningum á losun gróðurhúsalofts er flatarmál votlendis. Á Íslandi voru 9.092 ferkílómetrar skilgreindir sem votlendi árið 1990. Sú tala hefur lækkað nokkuð stöðugt á milli ára og var skráð 8.973 ferkílómetrar árið 2020.

Tölurnar hér að framan er að finna í útgefnu efni tengt loftslagsbókhaldi Íslands sem Umhverfisstofnun sér um að skila til Lofslagsráðs Sameinuðu þjóðanna. Einnig má nálgast tölurnar á vef Hagstofu Íslands.

Talnaefni