FRÉTT UMHVERFI 21. NÓVEMBER 2024

Áætlað er að losun gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands hafi verið 5.065 kílótonn CO2-ígilda á fyrstu þremur ársfjórðungum 2024. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur því dregist saman um 4% ef miðað er við sama tímabil fyrra árs. Hins vegar sé miðað er við sama tímabil ársins 2022 hefur losun aukist um 8%.

Tæplega 92% af losun frá hagkerfinu mátti rekja til atvinnugreina en þar vó þyngst losun tengd framleiðslu málma (26% af heildarlosun) og flugsamgöngum (25%). Losun frá fiskveiðum og fiskeldi nam um 7,7% af heildarlosun, litlu minna en losun frá heimilum landsins sem var um 8,2% af heildinni. Losun frá heimilum var nær eingöngu vegna aksturs heimilisbíla.

Þessar niðurstöður koma fram í bráðabirgðaútreikningum á losun gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands. Losun frá hagkerfi Íslands er frábrugðin losunarbókhaldi Íslands sem Umhverfisstofnun sendir til loftslagsráðs Sameinuðu Þjóðanna. Í því bókhaldi er eingöngu litið á losun sem á sér stað innan landamæra Íslands en útmörk hagkerfisins eru önnur.

Bráðabirgðatölurnar eru fengnar úr yfirgripsmikilli greiningu á mörgum þáttum sem hafa bein eða óbein áhrif á losun, þar á meðal gögnum um utanríkisverslun og tölfræði um rekstur fyrirtækja, vinnumarkað, samgöngutölur og mannfjölda. Þessar tölur eru settar í samhengi við sögulegt losunarmynstur til að búa til mánaðarlegt og árlegt mat.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.