Losun vegna flugsamgangna íslenskra flugfélaga dróst saman um 68% á milli áranna 2019 og 2020, úr 1.522 kílótonnum CO2 ígilda í 494 kílótonn. Þessi samdráttur kemur í kjölfar 37% samdráttar frá 2018 til 2019.
Ástæða samdráttarins 2018-2019 er fækkun flugfélaga í eigu Íslendinga á tímabilinu en samdrátturinn 2019-2020 er vegna viðbragða við kórónuveirufaraldrinum. Útreikningar fyrir losun eftir mánuðum sýna skarpan samdrátt strax í mars og apríl 2020 en lítilsháttar vöxt yfir sumarmánuðina.
Losun vegna flutninga á sjó dróst einnig saman á milli 2019 og 2020 samkvæmt bráðabirgðartölum en almennt hefur verið aukning í losun frá þessari grein frá 2010. Losun frá heimilum jókst um 3,9% frá 2019 til 2020 enda ferðuðust Íslendingar töluvert meira innanlands en undangengin ár. Losun vegna málmiðnaðar hélst óbreytt á milli ára.
Ásamt uppfærslu á talnaefni fyrir loftslagsbókhald hagkerfisins eru skammtímatölur um losun frá hagkerfinu eftir mánuðum nú einnig birtar á vef Hagstofu Íslands.