FRÉTT UMHVERFI 04. MAÍ 2023

Miðað við bráðabirgðatölur var losun koltvísýrings (CO2) vegna reksturs innan hagkerfis Íslands 5.244 kílótonn á árinu 2022 sem er aukning um 21,2% miðað við árið á undan þegar losunin var 4.328 kílótonn. Árið 2021 var málmiðnaður stærsta uppspretta koltvísýrings, 1.757 kílótonn. Það ár losuðu flutningar með flugi, flutningar á sjó, fiskveiðar og heimilin hvert í kringum 450 kílótonn. Losun frá málmiðnaði hefur haldist í kringum 1.700 kílótonn frá 2012. Losun frá flugi virðist hins vegar hafa aukist úr 466 í 1.332 kílótonn á milli 2021 og 2022 enda var mikill uppgangur í flugrekstri og komu ferðamanna til Íslands á þeim tíma.

Losun koltvísýrings náði hámarki árið 2018 (7.663 kílótonn) en það ár var áberandi mikil losun frá flugrekstri (3.568 kílótonn). Gjaldþrot í greininni ásamt samgöngutakmörkunum vegna kórónuveirufraraldursins eru hins vegar ástæða þess að losun 2021 var sú minnsta frá árinu 1995, 466 kílótonn.

Árið 2021 var losun koltvísýrings í vegasamgöngum 851 kílótonn eða um 20% af heildarlosun hagkerfisins. Bráðabirgðartölur fyrir 2022 sýna að losunin er komin upp í 883 kílótonn sem er sambærileg við losun árið 2018. Árið 2021 var losun frá bílum í rekstri heimila 471 kílótonn og losun fyrirtækja í flutningarekstri 96 kílótonn en undir þá atvinnugrein falla strætisvagnar, rútur og bílar í rekstri aðila í flutningarekstri. Losun frá öðrum atvinnurekstri var 284 kílótonn. Í þessari tölu er ekki talin losun vegna aksturs ferðamanna hérlendis sem var 59 kílótonn árið 2021 en mældist mest 107 kílótonn árið 2018.

Tölurnar hér að framan eru eingöngu um losun koltvísýrings en þar til viðbótar hefur losun metans, nituroxíðs og flúorgasa umtalsverð hlýnunaráhrif þótt losun sé minni í tonnum talið. Losun koltvísýrings kemur fyrst og fremst til vegna notkunar jarðefnaeldsneytis og kola. Losun frá hagkerfi Íslands er frábrugðin tölum sem birtar eru í loftslagsbókhaldi Íslands sem Umhverfisstofnun gefur út og sendir til loftslagsráðs Sameinuðu Þjóðanna. Í loftslagsbókhaldi hagkerfisins er tekin losun sem íslensk fyrirtæki og heimili greiða fyrir hvar sem losunin á sér stað. Þetta bókhald er þannig samhæft öðrum þjóðhagsreikningum. Loftlagsbókhald Íslands telur hins vegar losun sem á sér stað innan landsvæðis Íslands óháð þjóðerni.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.