Losun gróðurhúsalofttegunda hefur mismunandi birtingarmyndir eftir skilgreiningu á úrtaki fyrir uppsprettur. Hagstofa Íslands birtir nú losunarbókhald fyrir hagkerfi Íslands fyrir árin 1995 til 2016. Þetta bókhald, sem nefnist AEA bókhald (Air Emission Account), gefur aðra mynd en NIR (National Inventory Report) skýrslan um losun Íslands, sem Umhverfisstofnun sendir til Alþjóða Loftslagsráðsins (UNFCCC). Áður en ályktanir og greiningar eru dregnar frá þessum tölum er mikilvægt að skilja vel mismuninn á úrtökum og hvaða áhrif hann hefur á heildarlosun. Þessi mismunur getur nýst til að auka skilning á losun gróðurhúsaloftstegunda í umhverfi okkar.
Samanburður á losun frá hagkerfi og losun frá landsvæði
NIR skýrsla Umhverfisstofnunar gerir grein fyrir losun sem verður vegna landnotkunar, breytinga í landnotkun og skógrækt (LULUCF). Þessum hluta, sem er oft stærsti þátturinn í NIR skýrslunni, er sleppt í AEA bókhaldinu, þar sem landsvæði telst ekki vera hluti hagkerfisins. Þegar hlutur LULUCF er dregin frá heildarlosun í NIR skýrslunni stendur eftir losun vegna eldsneytisbruna, orkuvinnslu, efnisnotkunar í iðnaði, landbúnaði og förgunar á sorpi. Þessir þættir koma einnig inn í AEA bókhaldið. Myndin að neðan sýnir heildarlosun frá hagkerfi Íslands (AEA bókhald) og losun sem reiknast í NIR skýrslu Umhverfisstofnunar að frádregnum þætti LULUCF.
Samkvæmt því hefur heildarlosun Íslands á koltvísýringi án LULUCF dregist saman miðað við árið 2008 og haldist nokkuð óbreytt frá árinu 2010. Heildarlosun koltvísýrings frá hagkerfi Íslands hefur hins vegar aukist mikið frá árinu 2012. Losun frá hagkerfinu hefur því verið meiri en losun frá landsvæði Íslands frá 1995.
AEA bókhaldið nær yfir rekstur íslenskra fyrirtækja og fólks sem hefur búsetu á Íslandi óháð landsvæði. Þetta þýðir að losun frá flugi og annarri starfsemi íslenskra flugfélaga erlendis er bókfærð á meðan rekstur erlendra flugfélaga hérlendis telst ekki með. Á svipaðan hátt er losun vegna reksturs íslenskra skipafélaga tekin inn óháð siglingarleið, en rekstur skipa erlendra aðila sem kaupa eldsneyti hérlendis kemur ekki inn í heildarlosunina. Þetta búsetuskilyrði, sem einkennir AEA bókhaldið, gildir ekki í NIR skýrslunni. Í AEA bókhaldinu eru losunartölur flokkaðar eftir bálkum og deildum í atvinnugreinaflokkun hagkerfisins (ISAT-2008 eða NACE rev.2) en ekki aðgreindar eftir því hvaða efni eða framkvæmd valda losuninni.
Í NIR skýrslu Umhverfisstofnunar er tekin saman losun gróðurhúsalofts, sem verður innan landsvæðis Íslands. Landsvæði er sú hæð sem flugvélar í innanlandsflugi ná, en millilandaflug telst ekki með í útreikningi á CO2 losun. Mengun frá flugi samkvæmt NIR skýrslunni nær því eingöngu yfir eldsneytisnotkun í. Skilgreiningin á landsvæði gildir einnig á hafi fyrir siglingar á milli hafna á Íslandi og fyrir fiskiskip. Þetta þýðir að siglingar fiskiskipa og ferjusiglingar eru taldar í NIR skýrslunni. Kaup farskipa á olíu á Íslandi er hins vegar hægt að finna í viðaukatölum. NIR skýrslan flokkar losunartölur, efnisnotkun og framkvæmdir. .
Losun koltvísýrings í kílótonnum úr NIR skýrslunni og AEA bókhaldinu | ||||||||
Skýrsla | Liður | 1995 | 2000 | 2005 | 2010 | 2015 | 2016 | |
IPCC | A | Samtals | 10.080 | 10.621 | 10.740 | 11.570 | 11.470 | 11.402 |
B | Samtals, án landnotkunar | 2.465 | 2.934 | 2.969 | 3.621 | 3.536 | 3.490 | |
AEA | C | Samtals | 2.805 | 3.644 | 3.757 | 4.367 | 5.090 | 5.619 |
D | Íslendingar erlendis | 372 | 622 | 654 | 654 | 1.071 | 1.381 | |
E | Erlend starfsemi innanlands | 300 | 395 | 254 | 279 | 407 | 425 | |
F = C-D+E | Til samanburðar við IPCC | 2.732 | 3.417 | 3.356 | 3.992 | 4.426 | 4.664 | |
G = F-B | Mismunur | 267 | 483 | 387 | 371 | 889 | 1.174 | |
H = G/F | Hlutfall | 10% | 14% | 12% | 9% | 20% | 25% |
Skýringar: Íslendingar erlendis: Eldsneyti keypt erlendis af íslenskum fyrirtækjum í flugrekstri, skiparekstri og framkvæmdum auk eldsneytiskaupa íslenskra ferðamanna erlendis.
Erlend starfsemi hérlendis: Eldsneyti selt hérlendis til erlendra fyrirtækja í flugrekstri, skiparekstri og framkvæmdum auk eldsneytiskaupa erlendra ferðamanna hérlendis.
Athugasemd: Með því að reikna mismun I = C-D í stað F = C-D+E, er ekki marktækur munur á NIR og AEA tölunum fram til 2015. I gæti verið túlkast sem „innlend starfsemi hérlendis“. Þetta gildi er hins vegar ekki samanburðarhæft við lið B.
Heildarlosun frá hagkerfinu er hærri en heildarlosunin í NIR skýrslunni (án LULUCF þáttar) svo lengi sem rekstur á landi er í höndum fyrirtækja sem skráð eru hérlendis eða eru með staðbundinn rekstur (með íslenska kennitölu). Lönd þar sem samgönguþjónusta er aðkeypt og lítil framleiðsla er í iðnaði, geta verið með minni losun frá hagkerfinu en frá landsvæðinu.
Í AEA bókhaldinu eru teknir saman viðbótarliðir, svo að hægt sé að gera samanburð við NIR skýrsluna. Losun vegna kaupa íslenskra fyrirtækja og ríkisborgara á eldsneyti erlendis eru tekin saman (sjá lið D í töflu), en einnig eru kaup erlendra aðila hérlendis sýnd (sjá lið E í töflu). Réttur samanburður milli NIR skýrslunnar og AEA bókhaldsins fæst ef starfsemi Íslendinga erlendis er dregin frá AEA samtölunni, og erlendri starfsemi hérlendis bætt við (sjá lið F í töflu). Mismunurinn (liður G) er enn til staðar vegna skilgreiningar á landsvæði í NIR skýrslunni, þar eldsneytisnotkun í millilandasamgöngum telst ekki til heildarinnar, á meðan AEA bókhaldið gerir ekki upp á milli staðsetninga. Mismunur (liður G í töflu) bendir til þess að eldsneyti sem selt er á Íslandi til samgangna milli Íslands og annarra landa hafi aukist töluvert á síðustu árum, sem er í samræmi við öran vöxt í flugrekstri og innflutningi. Nánari greining á þessum tölum verður birt 30. október 2018.
NIR skýrslan og AEA þjóna mismunandi tilgangi. NIR skýrslan gildir um skuldbindingar Íslands gagnvart bókunum á alþjóðavettvangi, svo sem Kyoto bókuninni og Parísarsamkomulaginu (COP-21) og gefur góða mynd af hversu stór hluti mengunar kemur vegna mismunandi efnisnotkunar. AEA bókhaldið bætir hins vegar upplýsingagildi varðandi losun frá mismunandi atvinnugreinum og nýtist því til að rýna í hvaða atvinnugeirar skilja mest eftir sig og hvar er hægt að ná árangri. Bæði gögnin byggja hins vegar á sömu reikningsaðferð við að umbreyta efnis og eldsneytisnotkun eða framkvæmdum í losun gróðurhúsalofttegunda (IPCC).
Með útgáfu AEA losunarbókhaldsins er gerð nokkur breyting á gögnum Hagstofunnar. Flokkun gagna er nú eftirfarandi:
- Gögn úr AEA bókhaldinu, í fullri sundurliðun
- Samantekt helstu talna úr AEA bókhaldinu
- Gögn úr UNFCCC-NIR skýrslum Umhverfisstofnunar í fullri sundurliðun
- Samantekt á helstu liðum UNFCCC-NIR skýrslnanna
- Tölur um losun loftmengandi efna og flúor-efna sem eru á Íslandi
Um gögnin
Hagstofan skilaði nýverið losunarbókhaldi gróðurhúsalofttegunda fyrir íslenskt hagkerfi til Evrópsku hagstofunnar (Eurostat) í fyrsta sinn. Hagstofan byggir útreikninga sína að hluta til á NIR skýrslum auk eldsneytistalna sem Orkustofnun sendir Alþjóðaorkustofnuninni (IEA), gögnum frá Siglingastofnun varðandi komur og brottfarir skipa, bifreiðaskráningu frá Samgöngustofu, innflutningstölum frá tollstjóra auk annarra gagna. Í tölunum eru öll fyrirtæki með íslenskar kennitölur og einstaklingar búsettir á Íslandi, óháð því hvort að rekstur og losun eigi sér stað innan Íslands eða utan. Búast má við einhverri skekkju í tölunum þar sem gert er ráð fyrir að efniskaup og efnisnotkun eigi sér stað á sama tíma. Einnig eru gerðar áætlanir um mengunarvarnir, orkuþörf og gæði tækja eftir iðngreinum sem geta haft áhrif á reiknilíkanið. Tölur eru gefnar út árlega.