FRÉTT UMHVERFI 23. ÁGÚST 2021

Losun koltvísýringsígilda frá flugsamgöngum á öðrum ársfjórðungi 2021 var um 90 kílótonn samkvæmt bráðabirgðarútreikningi. Þetta er aukning um 41,7% frá fyrsta fjórðungi ársins og 54,1% hærra gildi en á öðrum ársfjórðungi 2020 en sá ársfjórðungur markast af mestu samgöngutakmörkunum í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins. Losun á öðrum ársfjórðungi 2021 var 84% minni en losun á öðrum ársfjórðungi 2018 þegar losun frá flutningum með flugi var mest (595 kílótonn).

Miklar breytingar hafa orðið í losun koltvísýrings frá flugi, ekki síst vegna fækkunar íslenskra fyrirtækja í flugrekstri og samdráttar vegna yfirstandandi faraldurs. Losun reiknast hér eingöngu vegna reksturs íslenskra flugfélaga en ekki vegna flugs erlendra fyrirtækja. Flugrekstur nær yfir bæði farþega- og fraktflug en það síðarnefnda varð fyrir minni áhrifum vegna faraldursins. Losunartölur fyrir 2021 reiknast út frá innflutningi á eldsneyti til landsins og eldsneytiskaupum íslenskra fyrirtækja erlendis. Eldsneyti sem selt er til erlendra flugrekstraraðila er áætlað út frá komutölum og dregið frá heildarsölu.

Losun koltvísýringsígilda vegna aksturs heimilisbifreiða var 158 kílótonn á öðrum ársfjórðungi 2021 sem er hæsta gildi sem hefur reiknast frá 2016 og um 22,3% meiri losun en í fyrra. Áhrif samgöngutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins virðast því varla mælanleg hjá heimilum samkvæmt þessum útreikningum enda voru Íslendingar óragir að ferðast á einkabílum innanlands í ár líkt og í fyrra. Losun frá heimilisbílum dróst nokkuð saman á öllum ársfjórðungum árið 2020 miðað við árið á undan en virðist hafa náð svipuðum gildum og fyrir takmarkanir vegna faraldursins.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.