FRÉTT UMHVERFI 01. DESEMBER 2021

Losun koltvísýringsígilda frá flugsamgöngum á þriðja ársfjórðungi 2021 var um 154 kílótonn samkvæmt bráðabirgðarútreikningi á losun frá hagkerfi Íslands. Þetta er aukning um 111% frá öðrum fjórðungi ársins og 27,7% hærra gildi en á þriðja ársfjórðungi ársins 2020. Losun á þriðja ársfjórðungi 2021 var 78% minni en losun á þriðja ársfjórðungi 2018 þegar losun frá flutningum með flugi var mest (711 kílótonn).

Þriðji ársfjórðungur markar mestu ferðavertíð á landinu og er ljóst að rekstur íslenskra flugfélaga er að aukast. Fleiri erlend flugfélög þjónustuðu Ísland í sumar en losun af völdum þessara félaga er ekki inni í losunartölum hagkerfisins sem sýndar eru hér.

Losun koltvísýringsígilda vegna aksturs heimilisbifreiða var 180 kílótonn á þriðja ársfjórðungi 2021 og um 13,2% meiri en á sama ársfjórðungi fyrir ári. Losun frá heimilisbifreiðum mældist þó nokkuð minni en árið 2018 þegar losun frá þeim náði hámarki.

Athygli vekur að losun frá framleiðslugreinum (bálkur C) er áberandi meiri á þriðja ársfjórðungi 2021 miðað við aðra fjórðunga í gögnunum. Losunin er metin út frá magni innflutnings hráefna og útflutnings iðnaðarvöru. Reiknuð losun var 591 kílótonn á þriðja ársfjórðungi sem er 15,4% meiri losun en á þriðja ársfjórðungi í fyrra og 28,3% meiri en á öðrum ársfjórðungi í ár.

Þessi hækkun gæti átt sér útskýringar í töfum á útflutningi á framleiddum iðnaðarvörum frá fyrri ársfjórðungum. Einnig gæti þetta verið hrein aukning í framleiðslu og þar af leiðandi losun sökum hagstæðs verðs á markaði. Í útflutningstölum er greinileg aukning í útflutningi hreins áls milli annars og þriðja ársfjórðungs 2021, en þessi aukning endurspeglast í aukinni losun frá málmframleiðendum (grein C24). Á sama tíma er umtalsverð aukning í útflutningi á kísli sem kemur í kjölfar aukins innflutnigns á hráefnum til framleiðslunnar, sem eru m.a. kvarts sandur og kol. Þessi aukning hefur áhrif á losun frá iðngreininni C20. Samtals losun frá iðnaðinum það sem af er ári er sambærilegur við samtals losun fyrir sama tímabil og á fyrri árum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.