FRÉTT UMHVERFI 25. JANÚAR 2022

Meirihluti þeirrar orku sem heimilin í landinu nota (62,3% árið 2020) er í formi hita í gegnum heitt vatn samkvæmt orkuflæðireikningum en þeir sýna meðal annars samsetningu orkunotkunar þeirra. Raforka hefur verið um 12% af orkunotkun heimilanna frá árinu 2014.

Hlutur lífeldsneytis hefur aukist úr 0,15% árið 2014 í 2,1% árið 2020. Þetta eldsneyti er fyrst og fremst íblöndunarefni í dísilolíu sem notað er á bifreiðar. Það sem út af stendur, eða um 30%, kemur frá jarðefnaeldsneyti (bensíni, dísilolíu og eldunargasi) en hlutdeild þess hefur dregist talsvert saman og var þannig 23,7% árið 2020.

Samsetning eldsneytis hefur breyst nokkuð frá árinu 2014. Hlutur dísilolíu hefur þannig aukist nokkuð á sama tíma og hlutur bensíns hefur dregist saman. Hlutdeild bensíns í orkunotkun var þannig 20,3% árið 2014 en 12,5% hlut árið 2020. Dísilolía var með 8,5% hlutdeild árið 2014 en 11,1% árið 2020.

Heildarorkunotkun hefur breytst lítið á milli ára, var 25.000 terajúl árið 2014 en 27.000 terajúl árið 2020. Þetta jafngildir um 1,5% árlegum vexti í orkunotkun en þessi aukning er í samræmi við fólksfjölgun í landinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.