Út er komið hefti Hagtíðinda um umhverfistölur í efnisflokknum Land og umhverfi. Í ritinu eru dregnar fram tölulegar upplýsingar um nokkra þætti umhverfismála með áherslu á útstreymistölur mengandi lofttegunda og samanburð við önnur lönd. Útstreymi koldíoxíðs og brennisteinsoxíðs hefur aukist frá árinu 1990, aðallega vegna mikillar aukningar á útstreymi frá iðnaðarferlum. Útstreymi köfnunarefnisoxíða, kolmónoxíðs og rokgjarnra lífrænna efna hefur hins vegar minnkað á sama tímabili. Bílaeign Íslendinga eykst stöðugt og eru þeir í hópi þeirra þjóða þar sem bílaeign er mest á hverja 1.000 íbúa. Orkunotkun Íslendinga er einnig með því mesta sem þekkist, þegar miðað er við orkunýtingu á hvern íbúa, en sérstaða landsins er mikil hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa. Staða ferskvatns er óvíða jafn góð hvað varðar bæði magn og gæði.
Umhverfi og loftmengun - Hagtíðindi