FRÉTT UMHVERFI 27. SEPTEMBER 2021

Áætlað magn umbúðaúrgangs hérlendis árið 2019 var 53.742 tonn eða sem nemur um 151 kílói af umbúðum á einstakling. Sama ár voru 25.406 tonn af umbúðarúrgangi send til úrvinnslu sem þýðir endurvinnsluhlutfall upp á 47,27%.

Þetta endurvinnsluhlutfall er heldur lægra en árið 2018 (51%) en sambærilegt við önnur undargengin ár þegar endurvinnsluhlutfall hefur verið um 45%. Af endurunnum úrgangi voru aðeins 528 tonn endurunnin eða endurnýtt innanlands en afgangurinn var fluttur til endurvinnslu erlendis. Innlend endurvinnsla hefur heldur dregist saman miðað við fyrri ár.

Með umbúðaúrgangi er átt við hvers konar pappírs- og pappaumbúðir auk plast-, viðar-, gler- og málmumbúða þar sem lagt er á úrvinnslugjald sem hægt er að endurheimta ef umbúðum er skilað til endurvinnslu. Efni telst endurunnið þegar það er móttekið af viðurkenndum endurvinnsluaðila. Tilfallandi umbúðarúrgangur er áætlaður út frá meðal innflutningi umbúða síðustu þriggja ára.

Þó mikil umræða sé um umbúðarplast er það aðeins um 32,4% af þunga áætlaðs umbúðarúrgangs. Umbúðarpappír og -pappi er um 39,4% af heildarþunga áætlaðs umbúðarúrgangs og gler er um 18,4%. Heimtur á plasti til endurvinnslu eru hins vegar heldur litlar. Árið 2019 er áætlað magn plastúrgangs 17.492 tonn. Aðeins 4.406 tonnum (25,2%) af þessu magni var skilað til endurvinnslu. Á sama tíma var endurvinnsluhlutfall pappírs og pappaumbúða mun hærra eða um 83%.

Þessar tölur eru hluti af nýútgefnu talnaefni á gagnavef Hagstofu Íslands. Efnið var áður eingöngu aðgengilega á gagnavef Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, en hefur nú verið yfirfarið og endurbirt hérlendis. Til viðbótar við upplýsingar um úrvinnslu plastefna er nú einnig birt tölfræði um úrvinnslu raftækjaúrgangs, úrvinnslu rafhlaða og rafgeyma auk úrvinnslu ökutækja.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278 , netfang umhverfi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.