Meðalfjöldi bifreiða sem ekið var um hringveginn um Mýrdalssand í apríl á síðasta ári, í miðri fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins (Covid-19), fór úr því að vera 1.046 bifreiðar árið 2019 niður í 217 árið 2020 sem er samdráttur upp á um 80%.
Vert er að hafa í huga að tölur fyrir 2020 eru bráðabirgðatölur. Umferð um Mýrdalssand var að jafnaði um 70% minni allt árið 2020 miðað við 2019 ef undan eru skildir mánuðirnir júlí og ágúst þegar fjölmargir Íslendingar ferðuðust um landið í sumarleyfum sínum. Ef horft er á alla mánuði ársins var umferðin 2020 að jafnaði aðeins um helmingur umferðarinnar árið á undan.
Áhrifa kórónuveirunnar gætti einnig á stofnvegum höfuðborgarsvæðisins. Umferðin á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi var þannig tæplega 23% minni í apríl 2020 miðað við sama mánuð 2019. Frá október til ársloka 2020 varð síðan 11% samdráttur í meðalfjölda. Þá mánuði sem samkomutakmarkanir voru ekki í gildi er hins vegar vart sjáanlegur munur í meðalumferð á þessum talningarstað.
Um gögnin
Byggt er á tölum frá Vegagerðinni um meðalumferð á dag eftir mánuðum úr 28 teljurum víðsvegar um landið sem Hagstofa Íslands birtir nú á vef sínum. Tölurnar eru gagnlegur mælikvarði á virkni í þjóðfélaginu og eru meðal annars notaðar í öðrum vísum sem Hagstofan birtir.
Talnaefnið er aðgengilegt á vef Hagstofunnar og verður uppfært ársfjórðungslega. Talnaefnið, sem og upplýsingar um aðferðarfræði talninga ásamt öðrum upplýsingum, er einnig að finna á vef Vegagerðarinnar.