Á árinu 2013 voru fluttar út vörur fyrir 610,7 milljarða króna fob en inn fyrir 541,4 milljarða króna fob, 583,5 milljarða króna cif. Afgangur var því á vöruskiptum við útlönd, reiknað á fob verðmæti út- og innflutnings, sem nam 69,3 milljörðum króna en 77,3 milljarða króna afgangur var árið 2012 á gengi hvors árs¹. Vöruútflutningur dróst saman um 3,5% frá fyrra ári á gengi hvors árs og vöruinnflutningur um 2,6%. Hlutur iðnaðarvöru var 50,6% alls vöruútflutnings og hlutur sjávarafurða voru 44,6% en í vöruinnflutningi voru stærstu vöruflokkarnir hrá- og rekstrarvörur með 29,8% hlutdeild og fjárfestingarvörur með 23% hlutdeild. Stærstu viðskiptalönd voru Holland í vöruútflutningi og Noregur í vöruinnflutningi og var EES þýðingarmesta markaðssvæðið, jafnt í vöruútflutningi sem vöruinnflutningi.
Hagstofan mun ekki gefa út Hagtíðindahefti nú með niðurstöðum ársins en þessi ráðstöfun er liður í sparnaðaraðgerðum hjá Hagstofu Íslands.
¹ Hagstofa Íslands birtir ekki lengur tölur um vöruskipti á föstu gengi. Á vef Hagstofu Íslands er að finna töflu um hlutfall einstakra gjaldmiðla í vöruskiptum.
Mánaðarlegar tölur um utanríkisverslun líðandi árs eru endurskoðaðar allt árið og því geta tölur fyrri mánaða árs breyst með útgáfu nýrra mánaðartalna. Endanlegar tölur fyrir hvert ár eru gefnar út á vormánuðum næsta ár á eftir.
Talnaefni