Ferðamálastofa og Hagstofa Íslands hafa gengið að tilboði um framkvæmd landamærarannsóknar á Keflavíkurflugvelli. Verkefnið var boðið út á vegum Ríkiskaupa á Evrópska efnahagssvæðinu í október síðastliðnum. Tilboð danska markaðsrannsóknarfyrirtækisins Epinion P/S var metið hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt valforsendum útboðslýsingar.

Verkefnið er fjármagnað fyrir aukafjárveitingu af fjárlögum í rannsóknir tengdum ferðaþjónustu. Áætlað er að framkvæmd rannsóknarinnar hefjist á vormánuðum og að fyrstu niðurstöður verði birtar í sumar. Rannsóknin mun beinast að ferðamönnum á leið frá Íslandi og mun byggjast á gagnaöflun á Keflavíkurflugvelli sem  fylgt verður eftir með netkönnun meðal svarenda.

Gert er ráð fyrir að birta niðurstöður mánaðarlega á vef Ferðamálastofu. Með rannsókninni verður til áreiðanlegri tölfræði um fjölda, útgjöld, atferli og viðhorf ferðamanna. Niðurstöður munu nýtast í útgáfum Hagstofunnar varðandi þjónustuviðskipti við útlönd, gistinætur, þjóðhagsreikninga og ferðaþjónustureikninga.