Verðmæti þjónustuútflutnings í október 2021 var áætlað 46,5 milljarðar króna og jókst um 67% frá því í október 2020 á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum voru áætlaðar um 20 milljarðar í október og jukust verulega, eins og undanfarna mánuði, samanborið við sama tíma 2020. Tekjur af samgöngum og flutningum voru áætlaðar 12,1 milljarður króna í október og jukust um 76% miðað við október 2020. Verðmæti annara þjónustuliða í útflutningi var áætlað 14,5 milljarðar í október og dróst saman um 23% frá því í október árið áður.

Verðmæti þjónustuinnflutnings í október var áætlað 38,1 milljarður króna og jókst um 46% frá því í október 2020 á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis voru áætluð 12,2 milljarðar í október og rúmlega þrefölduðust samanborið við október árið áður. Útgjöld vegna samgangna og flutninga voru áætluð 6,4 milljarðar í október og jukust um 28% miðað við október 2020. Verðmæti annara þjónustuliða í innflutningi var áætlað 19,5 milljarðar í október og jókst um 12% frá því í október fyrir ári.

Verðmæti þjónustuútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá nóvember 2020 til október 2021, var áætlað 449 milljarðar króna og jókst um 8% miðað við tólf mánaða tímabilið þar á undan. Á sama tímabili var verðmæti þjónustuinnflutnings áætlað 341,8 milljarðar og jókt um 4% miðað við tólf mánaða tímabilið þar á undan.

Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði* var áætlaður 73,1 milljarður króna í október 2021 en vöruinnflutningur 80,1 milljarður. Vöruskiptajöfnuður í greiðslujöfnuði var því áætlaður neikvæður um 6,9 milljarða króna. Verðmæti útflutnings vöru og þjónustu í október 2021 var því áætlað 119,7 milljarðar króna og jókst um 33% miðað við sama mánuð 2020. Verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta á sama tíma var 118,2 milljarðar og jókst um 28% miðað við sama mánuð 2020.

Verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta var áætlað 1.175,4 milljarðar króna á síðustu tólf mánuðum og jókst um 14% miðað við tólf mánuðina þar á undan. Verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta fyrir sama tímabil var áætlað 1.211,4 milljarðar og jókst um 17% miðað við tólf mánuði þar á undan. Uppsafnaður vöru- og þjónustujöfnuður fyrir síðustu tólf mánuði er því áætlaður neikvæður um 36 milljarða króna samanborið við 9,9 milljarða neikvæðan jöfnuð fyrir tólf mánuðina þar á undan.

*Samkvæmt stöðlum greiðslujafnaðar og þjóðhagsreikninga.

Talnaefni
Þjónustuviðskipti
Vöru- og þjónustuviðskipti