FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 27. ÁGÚST 2014

Í byrjun september 2014 munu Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands birta nýjar hagtölur um vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd, greiðslujöfnuð og þjóðhagsreikninga, í samræmi við uppfærða alþjóðlega staðla. Auk samræmingar hugtaka milli staðlanna er tilgangurinn að hagtölurnar endurspegli betur þær efnahagslegu stærðir sem mældar eru í þjóðarbúskapnum, meðal annars með því að taka tillit til ólöglegrar starfsemi, og auðveldi alþjóðlegan samanburð. Nú þegar hafa nokkur Evrópulönd, auk Ástralíu, Bandaríkjanna og Kanada innleitt hina nýju staðla. Sömu staðlar verða einnig innleiddir hjá öðrum Evrópuríkjum nú í september.

Vöru- og þjónustuviðskipti
Nýir staðlar um vöru- og þjónustuviðskipti sem unnir hafa verið undir forystu Sameinuðu þjóðanna verða teknir í notkun á Íslandi í ágúst og september 2014. Eftirfarandi er yfirlit yfir helstu aðferðafræðibreytingar.

Breytingar vegna nýrra staðla vöruviðskipta:

  • Kaup innlendra aðila (flutningsfara) á eldsneyti erlendis. Þessi kaup hafa hingað til verið talin með í þjónustuinnflutningi. Áhrif 2013: +5% (innflutningur).
  • Aðrar breytingar vegna nýrra staðla vöruviðskipta verða ekki teknar með núna heldur frestað til september 2015 en þær breytingar eru ekki taldar hafa mikil áhrif á niðurstöður.

 

Breytingar vegna nýrra staðla þjónustuviðskipta:

  • Óbeint mæld fjármálaþjónusta (FISIM) bætist við þjónustuviðskipti. FISIM er sú út- og innlánsþjónusta sem aðilar neyta og er verð þjónustunnar fundið út frá vaxtamun hverrar tegundar útlána og innlána. Áhrif 2013: +2% (útflutningur) og +1% (innflutningur) af þjónustuviðskiptum.
  • Framleiðsluþjónusta bætist við þjónustuviðskipti. Framleiðsluþjónusta er virðisauki innlendra aðila af því að vinna vörur fyrir erlenda aðila eða virðisauki erlendra aðila af því að vinna vörur fyrir innlenda aðila án þess að eignarhald vörunnar breytist. Áhrif 2013: +12% (útflutningur).
  • Milliliðaþjónusta er ekki lengur talin með í þjónustuviðskiptum en er bætt við vöruskipti í greiðslujöfnuði. Milliliðaþjónusta er virðisauki innlendra aðila af því að kaupa og selja vörur erlendis. Áhrif 2013: - 3% (útflutningur).
  • Kaup innlendra aðila (flutningsfara) á eldsneyti erlendis eru ekki lengur talin með í þjónustuviðskiptum en bætast við vöruskipti. Áhrif 2013: -8% (innflutningur).

 

Breytingar á birtingu þjónustuviðskipta:
Hingað til hefur þjónusta verið birt í þremur megin flokkum, samgöngum, ferðalögum og annarri þjónustu. Frá og með september 2014 verður þjónustu skipt niður í 12 flokka fyrir árið 2014 og sambærilegar tölur verða birtar fyrir árið 2013.

Breytingar á vöruviðskiptum í nýjum stöðlum greiðslujafnaðar:

  • Ekki er lengur hægt að nota tölur um vöruskipti útgefnar af Hagstofu beint í greiðslujöfnuð.
  • Smygli á vörum (áfengi, tóbak og ólögleg efni) skal bæta við vöruskipti útgefin af Hagstofu. Áhrif 2013: + 0,4% (innflutningur) af vöruskiptum.
  • Einnig skal ekki telja með vöruviðskiptum þegar vara í vinnslu er flutt inn til landsins til frekari vinnslu (eða flutt út úr landinu) og aftur út (eða aftur inn eftir vinnslu erlendis) og engin breyting verður á eignarhaldi vörunnar. Í stað þess skal telja með í þjónustuviðskiptum virðisauka (framleiðsluþjónustu) vegna þessarar vinnslu. Áhrif 2013: -10% (útflutningur) og -3% (innflutningur).
  • Draga skal frá vöruskiptum útgefnum af Hagstofu endursendar vörur til útlanda eða endursendar vörur frá útlöndum. Áhrif 2013: Hverfandi (útflutningur) og +1% (innflutningur)
  • Draga skal einnig frá vöruskiptum innflutt eða útflutt gull sem verslunarvöru. Áhrif 2013: Hverfandi (útflutningur og innflutningur).
  • Þessar breytingar samanlagt gera vöruskipti á greiðslujafnaðargrunni.
  • Vöruskipti í greiðslujöfnuði eru því eftirfarandi:
  • Vöruskipti á greiðslujafnaðargrunni
  • að viðbættri milliliðaverslun. Áhrif 2013: + 2% (útflutningur).
  • að viðbættu gulli sem verslunarvöru. Áhrif 2013: Hverfandi (útflutningur og innflutningur).
  • Niðurstaða er að vöru- og þjónustujöfnuður í greiðslujöfnuði 2013 mun verða um 6% hagstæðari við þessar breytingar vegna FISIM og mismunar á tímasetningu skráningar í vöru og þjónustu.

 

Hagstofa mun gefa út brúartöflu til að sýna breytingar á útgefnum tölum Hagstofunnar á vöru- og þjónustuviðskiptum og tölum um viðskipti eins og þau birtast í greiðslujöfnuði.

Nánari upplýsingar veita Auður Ólína Svavarsdóttir og Vésteinn Ingibergsson, Hagstofu Íslands.

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins

  • Vextir af inn- og útlánum fjármálafyrirtækja verða samkvæmt nýja staðlinum mældir sem hreinir vextir í þáttatekjum, þ.e. að frádreginni óbeint mældri fjármálaþjónustu.
  • Eigna- og skuldaliðum hefur verið umraðað þannig að staða og viðskipti milli fjárfestis (e. direct investor) og félags í hans eigu (e. direct investment enterprise) eru á vergum grunni í stað hreinnar stöðu þeirra í milli.
  • Sérstök grein er gerð fyrir viðskiptum milli eignatengdra félaga (e. fellow enterprises), en það eru félög sem eru ekki í beinum eignatengslum en tengjast t.d. í gegnum sama móðurfélag.
  • Gerð er sérstök grein fyrir stöðu og viðskiptum út frá því hvort endanlegur fjárfestir er innlendur eða erlendur aðili.
  • Lífeyris- og tryggingasjóðir teljast nú til fjármálalegra eigna og skulda.
  • Einnig eru kynntir liðir sem ekki hafa verið meðtaldir áður, s.s. sértæk félög, afleiður og annað hlutafé.
  • Áætlað er að breytingarnar muni leiða til hagstæðari viðskiptajafnaðar sem nemur 13% (m.v. árið 2013).
  • Einnig er áætlað að breytingarnar muni leiða til þess að erlend staða þjóðarbúsins verði 0,4% verri (m.v. árið 2013).

 

Nánari upplýsingar veitir Ríkarður Bergstað Ríkarðsson, Seðlabanka Íslands.

Þjóðhagsreikningar

Nýr staðall fyrir þjóðhagsreikninga er frábrugðinn þeim eldri hvað varðar umfang og aðferðafræði sem endurspegla breytingar sem orðið hafa á efnahagslífi og rekstri fyrirtækja síðustu ár. Í september 2014 mun Hagstofa Íslands, eins og hagstofur annarra ríkja EES, innleiða þennan þjóðhagsreikningastaðal, European System of National Accounts 2010 (ESA 2010) við gerð þjóðhagsreikninga. ESA 2010 er evrópsk útgáfa alþjóð-legs þjóðhagsreikningastaðals Sameinuðu þjóðanna, System of National Accounts 2008 (SNA 2008).

Samhliða upptöku staðalsins hefur Hagstofan gert aðrar endurbætur á þjóðhagsreikningunum. Meðal annars hefur mati á ólöglegri starfsemi verið bætt við og aðferðir við óbeint mælda fjármálaþjónustu verið teknar til gagngerrar endurskoðunar.

 

Helstu breytingar sem hafa áhrif á landsframleiðslu (2013) hér á landi eru:

  • Rannsóknar- og þróunarkostnaður mun teljast til fjármunamyndunar en ekki aðfanga hjá fyrirtækjum með samsvarandi aukningu landsframleiðslu. Áhrif á verga landsframleiðslu (VLF) eru áætluð um 1,3%.
  • Endurskoðun á óbeint mældri fjármálaþjónustu leiðir til 0,7-1% hærri VLF. Mjög mismunandi áhrif eftir árum.
  • Mati á ólöglegri starfsemi bætt við og hefur tæplega 0,5% áhrif á VLF.
  • Aðrar endurbætur í fjárfestingu, samneyslu og einkaneyslu auk breytts vöruskiptajafnaðar gætu haft áhrif til 0,5%-1% hækkunar á VLF.

 

Sjá einnig: Nýir staðlar fyrir þjóðhagsreikninga og utanríkisverslun

Staðlabreytingar 2014 - Áhrif á þjóðhagsreikninga 
Áhrif staðlabreytinga á vöruskipti og þjónustuviðskipti við útlönd 
Staðlabreytingar 2014 - Greiðslujöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.