Tekjur af útfluttri þjónustu á árinu 2023 námu 938,8 milljörðum króna en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu 630,2 milljörðum. Fyrir vikið var þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 308,6 milljarða króna samanborið við jákvæðan jöfnuð upp á 196,5 milljarða árið 2022 á gengi hvors árs.
Útflutningur á þjónustu jókst um 24% á milli ára
Verðmæti þjónustuútflutnings árið 2023 var 179,2 milljörðum króna meira samanborið við árið 2022 eða 24% á gengi hvors árs. Aukinn þjónustuútflutning má að mestu leyti rekja til aukningar í tekjum af ferðalögum og samgöngum og flutningum. Útflutningstekjur af ferðalögum námu 430,4 milljörðum árið 2023 og jukust um 28% samanborðið við árið 2022. Útflutningstekjur af samgöngum og flutningum námu 280,3 milljörðum króna árið 2023 og jukust um 25% samanborið við árið 2022.
Útflutningstekjur af farþegaflutningum með flugi skýra að mestu leyti þessa aukningu á útflutningi á samgöngum og flutningum en þær útflutningstekjur aukast um 46% á milli ára. Sömu sögu er að segja af útflutningstekjum af fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu og annarri viðskiptaþjónustu. Útflutningstekjur af fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu námu 74,8 milljörðum króna árið 2023 og jukust þær tekjur um 14% á milli ára. Útflutningstekjur af annarri viðskiptaþjónustu námu 77,5 milljörðum árið 2023 og jukust um 11% á milli ára.
Bandaríkin voru stærsta einstaka viðskiptaland í þjónustuútflutningi á árinu 2023 og námu útflutningstekjurnar 306 milljörðum króna árið 2023. Útflutningurinn á þjónustu til Bandaríkjanna jókst á milli áranna 2022 og 2023 um 24% á gengi hvors árs. Aukninguna á útflutningi á þjónustu til Bandaríkjanna skýrist helst af aukningu á útflutningstekjum af farþegaflutningum með flugi og ferðalögum. Útflutningstekjur til Bretlands námu 98,2 milljörðum króna árið 2023 og jukust um 30% á milli ára. Auknar útflutningstekjur af tölvuþjónustu til Bretlands er helsta skýringin á þessum aukna útflutningi á þjónustu til Bretlands. Á sama tíma jukust útflutningstekjur til Þýskalands um 4% og námu þær 64,8 milljörðum.
Innflutningur á þjónustu eykst um 12% á milli ára
Árið 2023 var verðmæti þjónustuinnflutnings 67 milljörðum króna meira en árið 2022 eða 12% á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga námu 225,1 milljarði árið 2023 og jukust um 10% samanborið við árið 2022. Útgjöld vegna samgangna og flutninga námu 120 milljörðum króna árið 2023 og jukust um 11% samanborið við árið áður. Sömu sögu er að segja af útgjöldum vegna annarrar viðskiptaþjónustu, sem jukust um 21% á milli ára, og útgjöldum vegna fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu sem jukust um 23% á milli ára.
Stærstu viðskiptalönd í þjónustuinnflutningi á árinu 2023 voru sem fyrr Bandaríkin og Bretland. Gjöld vegna innflutnings á þjónustu frá Bandaríkjunum á árinu 2023 námu 77,9 milljörðum króna og jukust um 7% á milli ára. Á sama tíma námu gjöld vegna innflutnings á þjónustu frá Bretlandi 73 milljörðum og jukust um 16%. Í kjölfar Bretlands og Bandaríkjanna fylgdi svo Holland en innflutningur á þjónustu frá Hollandi jókst um 13% á milli ára.
Töflur með ítarlegri sundurliðun þjónustuflokka og landaskiptingu eru birtar á vef Hagstofunnar.