Heildartekjur af þjónustuútflutningi á fyrsta ársfjórðungi 2019 voru, samkvæmt bráðabirgðatölum, 131,7 milljarðar króna. Heildarútgjöld vegna innfluttrar þjónustu voru 102,0 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 29,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi en var jákvæður um 36,6 milljarða á sama tíma árið áður, á gengi hvors árs.
Verðmæti útflutnings af samgöngum og flutningum dregst saman milli ára
Á fyrsta ársfjórðungi 2019 stóð heildarverðmæti þjónustuútflutnings nánast í stað ef miðað er við sama tímabili árið áður, á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðaþjónustu voru 66,4 milljarðar og voru 7,6% hærri en á sama tíma árið áður. Tekjur af samgöngum og flutningum námu 38,5 milljörðum og lækkuðu um 14,4% miðað við sama tíma árið áður. Vegur þar þyngst samdráttur í tekjum af farþegaflutningum með flugi.
Hagstofan birtir nú í fyrsta skipti landaskiptingu ársfjórðungslegra þjónustuviðskipta. Verðmæti þjónustuútflutnings til Evrópu nam 63,9 milljörðum eða 48,5% af heildarverðmæti þjónustuútflutnings á fyrsta ársfjórðungi 2019. Þar af var 20,1 milljarður til Bretlands eða 15,3% af heildarverðmæti. Á sama tíma nam verðmæti þjónustuútflutnings til Bandaríkjanna 40,5 milljörðum eða 30,7% af heildarþjónustuútflutningi. Nánari upplýsingar má finna í töflunni, Þjónustuviðskipti við útlönd eftir löndum og ársfjórðungum 2019, sem finna má á vef Hagstofunnar.
Verðmæti þjónustuinnflutnings hækkar á milli ára
Á fyrsta ársfjórðungi 2019 var verðmæti þjónustuinnflutnings 6,7 milljörðum hærra en sama tíma árið áður, eða 7,1% á gengi hvors árs. Útgjöld vegna innfluttrar ferðaþjónustu námu 41,4 milljörðum og hækkuðu um 6,9% frá sama tíma árið áður.
Verðmæti þjónustuinnflutnings frá Evrópu á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam 76,1 milljarði eða 74,6% af heildarverðmæti þjónustuinnflutnings. Þar af var þjónustuinnflutningur frá Bretlandi var 15,9 milljarðar eða 15,6% af heildar innflutningi. Fyrir sama tímabil nam verðmæti þjónustuinnflutnings frá Bandaríkjunum 17,1 milljarði eða 16,8% af heildarverðmæti innflutnings.
Mánaðarlegur þjónustujöfnuður
Samhliða ársfjórðungsútgáfu á þjónustujöfnuði uppfærir Hagstofan gögn um mánaðarlegan þjónustujöfnuð fyrir fyrsta ársfjórðung 2019.
Útflutt þjónusta er áætluð 46,5 milljarðar í mars 2019 og innflutt þjónusta er áætluð 35,9 milljarðar. Þjónustujöfnuður er því áætlaður jákvæður um 10,6 milljarða í mars 2019.
Verðmæti útflutnings og innflutnings á þjónustu 2018 og 2019 | |||
Milljónir króna á gengi hvors árs | Breytingar frá fyrra ári á gengi hvors árs, % 1. ársfjórðungur | ||
1. ársfjórðungur | |||
2018 | 2019 | ||
Útflutt þjónusta | 131.814,2 | 131.701,5 | -0,1 |
Samgöngur og flutningar | 44.978,3 | 38.483,8 | -14,4 |
Ferðalög | 61.692,2 | 66.359,8 | 7,6 |
Önnur viðskiptaþjónusta | 6.057,8 | 10.405,0 | 71,8 |
Aðrir þjónustuliðir | 19.085,9 | 16.452,9 | -13,8 |
Innflutt þjónusta | 95.264,0 | 101.987,5 | 7,1 |
Samgöngur og flutningar | 15.898,3 | 17.776,9 | 11,8 |
Ferðalög | 38.685,9 | 41.355,4 | 6,9 |
Önnur viðskiptaþjónusta | 18.497,0 | 16.228,7 | -12,3 |
Aðrir þjónustuliðir | 22.182,7 | 26.626,5 | 20,0 |
Þjónustujöfnuður | 36.550,2 | 29.714,0 |