Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti tölur um þjónustuviðskipti við útlönd.
Á síðustu árum hafa komið fram æ ríkari óskir, jafnt alþjóðastofnana sem annarra notenda, um ítarlegri sundurliðun og landaskiptingu gagna um þjónustuviðskipti við útlönd en hingað til hefur verið unnt að birta. Seðlabanki Íslands hefur unnið gögn um þjónustuviðskipti að mestu út frá upplýsingum um gjaldeyrisviðskipti fyrirtækja sem fram fara í gegnum íslenska banka. Í þeim gögnum er ekki að finna mikla sundurliðun á þeirri þjónustu sem seld er eða keypt né heldur skiptingu þessara viðskipta eftir löndum.
Hagstofan og Seðlabankinn gerðu sameiginlega úttekt á hvernig bæri að standa að söfnun gagna og skýrslugerð um þjónustuviðskipti. Ein helsta niðurstaða þeirrar athugunar var að nauðsynlegt væri að taka upp nýja aðferðafræði við uppgjör á þjónustuviðskiptum við útlönd og leita beint til fyrirtækja sem stunda slík viðskipti. Í framhaldi af því varð að samkomulagi að flytja verkefnið frá Seðlabankanum til Hagstofunnar. Þetta er í samræmi við þróun sem orðið hefur í ýmsum ríkjum EES.
Hagstofan hefur um nokkurt skeið unnið að undirbúningi og þróun þessa verkefnis. Breytingar á gjaldeyrismarkaði í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafa leitt til erfiðleika Seðlabankans við mat á þjónustuviðskiptunum og því var gripið til þess ráðs að Hagstofan taki yfir gagnasöfnunina og birti niðurstöður um þjónustuviðskipti við útlönd fyrr en áður var áætlað.
Niðurstöðurnar sem nú eru birtar fyrir fyrsta ársfjórðung 2009 munu að öllum líkindum breytast eftir því sem fyllri upplýsingar berast og verkinu vindur fram. Á þessari stundu er ekki unnt að birta ítarlega sundurliðun eftir tegund þjónustu né eftir löndum eins og ætlunin var. Niðurstöðurnar verða endurskoðaðar við birtingu næstu ársfjórðunga og nánari sundurliðun birt eftir því sem gagnasöfnunin festist betur í sessi.
Við skipulagningu verkefnisins var áætlað að niðurstöður Seðlabanka og Hagstofu yrðu bornar saman fyrir a.m.k. tvo samfellda ársfjórðunga til að tryggja gæði áður en Hagstofan tæki verkefnið yfir. Það hefur ekki reynst unnt og því er erfiðleikum háð að meta gæði nýju gagnasöfnunarinnar.
Stór fyrirtæki skila Hagstofunni gögnum fyrir fyrsta ársfjórðung 2009 en niðurstöður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á fyrsta ársfjórðungi 2009 eru metin út frá gögnum fyrir árið 2008. Í eðlilegu árferði er slíkt mat góð og gild aðferð, en þar sem miklar breytingar hafa orðið á umhverfi fyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins má áætla að gögn fyrir 2008 séu ekki nógu góður grundvöllur til að meta niðurstöður fyrir árið 2009. Hagstofa hefur hins vegar leitað stoðar í öðrum gögnum, svo sem virðisaukaskattskrá, til að styrkja áætlun um þjónustuviðskipti lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Fyrirtæki skila gögnum rafrænt til Hagstofunnar, annaðhvort í gegnum vefsíðu eða vefþjónustu. Hagstofan hefur í tengslum við verkefnið þurft að leita til fjölda fyrirtækja og kann Hagstofan þeim bestu þakkir fyrir góðar viðtökur.
Hagstofan mun gera ítarlega grein fyrir aðferðafræði verkefnisins síðar.
Útflutningur þjónustu á fyrsta ársfjórðungi er því samkvæmt bráðabirgðatölum 53,1 milljarður og innflutningur þjónustu 56,0 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd á fyrsta ársfjórðungi er því neikvæður um 2,9 milljarða.
Þjónustuviðskipti við útlönd | |
1. ársfj. 2009 | |
Verðmæti í milljónum króna | |
Útflutt þjónusta | 53.080,8 |
Samgöngur | 24.091,0 |
Ferðalög | 10.687,8 |
Önnur þjónusta | 18.302,0 |
Innflutt þjónusta | 56.015,0 |
Samgöngur | 20.339,0 |
Ferðalög | 17.561,3 |
Önnur þjónusta | 18.114,7 |
Þjónustujöfnuður | -2.934,1 |