FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 03. JÚNÍ 2004

Út er komið hefti í efnisflokknum Utanríkisverslun og ber það heitið Utanríkisverslun með vörur 2003. Í ritinu kemur m.a. fram að fluttar voru út vörur fyrir 182,6 milljarða króna en inn fyrir 199,5 milljarða króna fob, 216,5 milljarða króna cif. Halli var á vöruskiptunum við útlönd sem nam 16,9 milljörðum króna fob. Útflutningur dróst saman um 11% frá fyrra ári á verðlagi hvors árs, en innflutningur jókst um 4%. Í útflutningi voru sjávarafurðir 62% alls útflutnings, iðnaðarvörur 34% en í innflutningi voru stærstu vöruflokkar hrá- og rekstrarvörur, fjárfestingavörur og neysluvörur. Stærstu viðskiptalönd voru Bretland í útflutningi og Þýskaland í innflutningi og var EES þýðingamesta markaðssvæðið, jafnt í útflutningi sem í innflutningi. Samhliða útgáfu heftisins eru birtar sundurliðaðar töflur um utanríkisverslunina 2003 á vef hagstofunnar, svo sem eftir ýmsum flokkunarkerfum utanríkisverslunar, ýtarlegar upplýsingar um utanríkisverslunina eftir tollskrárnúmerum og löndum og eftir einstökum löndum og vöruflokkum.

Utanríkisverslun með vörur 2003 - útgáfur  

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.