Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði* var áætlaður 154 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2020 en vöruinnflutningur 187,9 milljarðar. Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 33,9 milljarða króna. Á sama ársfjórðungi var þjónustujöfnuður áætlaður jákvæður um 20,4 milljarða. Útflutt þjónusta var áætluð 90,5 milljarðar króna en innflutt þjónusta 70,1 milljarður.

Á þriðja ársfjórðungi 2020 var því áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 244,5 milljarðar króna samanborið við 374,7 milljarða á þriðja ársfjórðungi árið áður. Á sama tíma var áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 258,1 milljarður samanborið við 314,3 milljarða á sama tíma árið áður. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður neikvæður um 13,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2020 en var jákvæður um 60,4 milljarða á sama tíma 2019.

Fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2020 var vöru- og þjónustujöfnuðurinn neikvæður um 30,5 milljarða en var jákvæður um 109,4 milljarða á sama tíma 2019.

Útflutningstekjur af þjónustuviðskiptum hafa dregist saman um tæp 50% það sem af er ári
Verðmæti þjónustuútflutnings var 133,5 milljörðum króna minna á þriðja ársfjórðungi 2020 en á sama tíma árið áður eða 59,6% á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum námu 28,4 milljörðum og lækka á milli ára um 91,2 milljarða króna eða 76,3% á gengi hvors árs fyrir sig. Tekjur af samgöngum og flutningum minnka einnig mikið á milli ára eða um 72,1% eða 47,7 milljarða króna á gengi hvors árs. Samdráttur í útflutningstekjum af farþegaflutningum með flugi vegur þar þyngst en samdrátturinn þar mælist 90,8% á milli ára.

Verðmæti þjónustuútflutnings til Evrópu á þriðja ársfjórðungi 2020 nam 62,8 milljörðum króna eða 69,4% af heildarverðmæti þjónustuútflutnings. Þar af var þjónustuútflutningur til Þýskalands 10,9 milljarðar króna, eða 12,1% af heildarverðmæti, og þjónustuútflutningur til Bretlands 10,6 milljarðar eða 11,7% af heildarverðmæti. Á sama tíma nam verðmæti þjónustuútflutnings til Bandaríkjanna 16 milljörðum króna eða 17,7% af heildarþjónustuútflutningi.

Verðmæti þjónustuinnflutnings hefur einnig dregist mikið saman á árinu Verðmæti þjónustuinnflutnings var 45,6 milljörðum króna minna á þriðja ársfjórðungi 2020 en á sama tíma árið áður eða 39,4% á gengi hvors árs fyrir sig. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis námu 16,1 milljarði króna og lækka um 33,6 milljarða á milli ára eða 81,7% á gengi hvors árs. Útgjöld vegna samgangna og flutninga dragast töluvert saman á milli ára, um 32,5% eða 9,8 milljarða króna á gengi hvors árs.

Verðmæti þjónustuinnflutnings frá Evrópu á þriðja ársfjórðungi 2020 nam 57,4 milljörðum króna, eða 81,8% af heildarverðmæti þjónustuinnflutnings. Þar af var þjónustuinnflutningur frá Hollandi 8,1 milljarður eða 11,6% af heildarinnflutningi og þjónustuinnflutningur frá Bretlandi 7,6 milljarðar króna, eða 10,9% af heildarinnflutningi. Fyrir sama tímabil nam verðmæti þjónustuinnflutnings frá Bandaríkjunum 8,2 milljörðum króna, eða 11,7% af heildarverðmæti innflutnings.

Mánaðarlegur vöru- og þjónustujöfnuður
Samhliða ársfjórðungsútgáfu á vöruviðskipta- og þjónustujöfnuði uppfærir Hagstofan gögn um mánaðarlegan vöruviðskipta- og þjónustujöfnuð á þriðja ársfjórðungi 2020. Í september var áætlað verðmæti útflutnings fyrir vöru- og þjónustuviðskipti 83,9 milljarðar króna en áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 94,2 milljarðar króna. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður neikvæður um 10,2 milljarða króna í september 2020.

Verðmæti útflutnings og innflutnings á þjónustu 2019 og 2020
  Milljónir króna á gengi hvors árs Breytingar frá fyrra ári á gengi hvors árs, % 1.-3. ársfjórðungur
  3. ársfjórðungur 1. -3. ársfjórðungur
 2019202020192020
       
Útflutt þjónusta 223.972,7 90.508,4 524.232,3 269.594,9 -48,6
Samgöngur og flutningar 66.131,7 18.453,2 155.446,1 71.252,9 -54,2
Ferðalög 119.549,1 28.385,9 268.508,9 79.703,5 -70,3
Önnur viðskiptaþjónusta 13.553,1 20.752,7 31.011,1 43.740,8 41,0
Aðrir þjónustuliðir 24.738,9 22.916,6 69.266,3 74.897,8 8,1
         
Innflutt þjónusta 115.693,0 70.131,8 325.898,5 223.392,1 -31,5
Samgöngur og flutningar 24.216,2 14.422,1 65.051,7 46.322,8 -28,8
Ferðalög 49.678,8 16.078,9 138.345,4 58.041,2 -58,0
Önnur viðskiptaþjónusta 16.306,1 17.252,7 45.997,2 48.047,2 4,5
Aðrir þjónustuliðir 25.491,9 22.378,1 76.504,2 70.980,9 -7,2
           
Þjónustujöfnuður 108.279,7 20.376,5 198.333,9 46.202,9  

Endurskoðun utanríkisverslunartalna
Hagstofa Íslands hefur breytt fyrirkomulagi endurskoðunar utanríkisverslunartalna á þann hátt að auk hefðbundinnar útgáfu bráðabirgðatalna og endanlegra talna fyrir vöru- og þjónustuviðskipti verða tímaraðir endurskoðaðar eftir þörfum á fimm ára fresti, svokölluð meiriháttar endurskoðun (e. benchmark revision). Verður þá leitast við að innleiða breytingar vegna nýrri eða betri gagna, nýrri eða endurbættra aðferða við mat á gögnum og endurskoðun staðla og flokkunarkerfa. Hér eru birtar niðurstöður af fyrstu meiriháttar endurskoðuninni. Til samræmis við önnur Evrópulönd er næsta meiriháttar endurskoðun fyrirhuguð árið 2024 og síðan á fimm ára fresti eftir það.

Vöruviðskipti
Í meginatriðum hafa tvö markmið vegið þyngst við endurskoðun vöruviðskipta, annars vegar að koma inn leiðréttingum á eldri gögnum og hins vegar að uppfæra gögn miðað við staðal vöruviðskipta IMTS 2010 og fyrri útgáfur hans. Hvað snertir leiðréttingar á eldri gögnum hækkar verðmæti útflutnings samtals um 22,1 milljarð vegna tollskýrslna sem ýmist höfðu ekki borist Hagstofunni eða reyndust rangar. Þessar breytingar ná allt aftur til ársins 1999 en vega þyngst fyrir árin 2018-2019. Einnig tók tollasvið Skattsins, upp nýja tollskýrslu fyrir innflutning á árinu 2019. Bætt var við bráðabirgðatölum um þau gögn sem tollafgreidd voru samkvæmt hinni nýju tollskýrslu og voru áhrif þessa 4,3 milljarðar árið 2019 og 24 milljarðar árið 2020. Þær tölur verða endurskoðaðar þegar betri gögn liggja fyrir.

Hvað snertir uppfærslu á gögnum vöruviðskipta, miðað við staðal vöruviðskipta, var bætt við vörum sem fluttar eru inn til landsins eða út úr landinu til förgunar eða endurvinnslu (árin 1999-2020). Sú breyting hefur hverfandi áhrif á verðmæti en áhrifin koma helst fram í þyngd. Einnig var bætt við innflutningi á sæstrengjum (árin 2004 og 2009) að verðmæti 16,1 milljarður. Vonir stóðu til að geta bætt við öðrum liðum sem eiga að vera meðtalin samkvæmt staðli vöruviðskipta, eins og t.d. búslóðum og gjöfum en vegna ófullnægjandi upplýsinga í tollskýrslum var fallið frá þeim áformum að þessu sinni.

Þjónustuviðskipti
Þjónustuviðskipti voru endurskoðuð, annars vegar með tilliti til flokkunarkerfis og hins vegar bættrar aðferðafræði sem fólst í endurskoðun á seðlaveltu og flokkun viðskipta með greiðslukortum. Endurskoðun á flokkunarkerfi náði aðeins til þjónustuinnflutnings, en 135,5 milljarðar voru færðir úr annarri viðskiptaþjónustu (rekstrarleigu) í samgöngur (farþegaflutninga með flugi) fyrir árin 2009-2018. Auk þess voru 16,3 milljarðar vegna kostnaðar við sjúkrameðferðir Íslendinga erlendis færðir úr heilbrigðisþjónustu í heilsutengda ferðaþjónustu fyrir árin 2009-2019.

Breytingar vegna endurskoðunar á aðferðafræði náðu bæði til inn- og útflutnings á þjónustu. Hafði endurskoðunin í för með sér 14,7 milljarða króna hækkun á útflutningi á ferðaþjónustu (árin 2013-2019) og á fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu (árin 2018-2019). Hins vegar varð 7,4 milljarða króna lækkun á útflutningi á hugverkaþjónustu árið 2018. Í innflutningi varð til samtals 21,5 milljarða króna hækkun á menningar- og afþreyingarþjónustu, fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu og samgönguþjónustu árin 2013-2019 en á móti kom 61,1 milljarðs króna lækkun í innflutningi á ferðaþjónustu sömu ár.

*Samkvæmt stöðlum greiðslujafnaðar og þjóðhagsreikninga.

Talnaefni