Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði* var áætlaður 173,6 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi 2020 en vöruinnflutningur 189,1 milljarður. Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 15,5 milljarða króna. Á sama ársfjórðungi var þjónustujöfnuður áætlaður jákvæður um 26,4 milljarða. Útflutt þjónusta var áætluð 103,3 milljarðar króna en innflutt þjónusta 76,9 milljarðar.
Á fjórða ársfjórðungi 2020 var því áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 276,9 milljarðar króna samanborið við 335,8 milljarða á fjórða ársfjórðungi árið áður á gengi hvors árs. Á sama tíma var áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 265,9 milljarðar samanborið við 291,4 milljarða á sama tíma árið áður. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður jákvæður um 10,9 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2020 en var jákvæður um 44,4 milljarða á sama tíma 2019.
Seinustu tólf mánuði var vöru- og þjónustujöfnuðurinn neikvæður um 17,5 milljarða en var jákvæður um 153,9 milljarða seinustu tólf mánuði þar á undan.
Verðmæti útflutnings og innflutnings vöru og þjónustu (milljarðar króna) | ||||||
4.ársfj. 2019 | 4.ársfj. 2020 | Breyting % | 1. ársfj. 2019 - 4. ársfj. 2019 | 1. ársfj. 2020 - 4. ársfj. 2020 | Breyting % | |
Útflutningur á vöru- og þjónustu | 335,8 | 276,9 | -18 | 1.350,8 | 1.002,8 | -26 |
Vöruútflutningur | 162,7 | 173,6 | 7 | 653,4 | 628,5 | -4 |
Þjónustuútflutningur | 173,1 | 103,3 | -40 | 697,4 | 374,3 | -46 |
Innflutningur á vöru- og þjónustu | 291,4 | 265,9 | -9 | 1.196,9 | 1.020,3 | -15 |
Vöruinnflutningur | 179,8 | 189,1 | 5 | 759,4 | 718,8 | -5 |
Þjónustuinnflutningur | 111,6 | 76,9 | -31 | 437,5 | 301,5 | -31 |
Vöru- og þjónustujöfnuður í greiðslujöfnuði | 44,4 | 10,9 | 153,9 | -17,5 |
Verðmæti þjónustuútflutnings 46% minna á tólf mánaða tímabili
Verðmæti þjónustuútflutnings á fjórða ársfjórðungi dróst saman um 69,9 milljarða, eða um 40% frá fjórða ársfjórðungi 2019 á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum drógust saman um 55,1 milljarð eða um 89% samanborið við fjórða ársfjórðung 2019. Tekjur af samgöngum og flutningum drógust einnig mikið saman á milli ára eða um 21,3 milljarða eða 52%. Samdráttur í útflutningstekjum af farþegaflutningum með flugi vó þar þyngst. Á móti kom að útflutningstekjur af gjöldum vegna notkunar hugverka jukust um 8,4 milljarða eða 30% miðað við fjórða ársfjórðung 2019 sem skýrist af vaxandi tekjum í lyfjaiðnaði.
Verðmæti þjónustuútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá janúar til desember 2020, var 374,3 milljarðar og minnkaði um 323,1 milljarð króna miðað við sama tímabil árið áður eða um 46% á gengi hvors árs. Þar vó þyngst samdráttur í útflutningstekjum af ferðalögum um 74% og útflutningstekjum af samgöngum um 54%. Að sama skapi jukust útflutningstekjur af gjöldum vegna notkunar hugverka um 46%. Útflutningstekjur af annarri viðskiptaþjónustu jukust um 27% sem skýrist einkum af auknum útflutningstekjum af rannsókna- og þróunarþjónustu.
Verðmæti þjónustuinnflutnings dróst einnig mikið saman á tólf mánaða tímabili
Verðmæti þjónustuinnflutnings á fjórða ársfjórðungi dróst saman um 34,7 milljarða, eða um 31% frá fjórða ársfjórðungi 2019 á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis drógust saman um 35,8 milljarða eða um 77% samanborið við fjórða ársfjórðung 2019. Útgjöld vegna samgangna og flutninga drógust einnig töluvert saman á milli ára, um 3,9 milljarða eða 21%. Á móti kom að þjónustuinnflutningur á annarri viðskiptaþjónustu jókst um 3,3 milljarða, eða 16%, sem skýrist af auknum innflutningi á rannsókna- og þróunarþjónustu.
Verðmæti þjónustuinnflutnings á tólf mánaða tímabili, frá janúar til desember 2020, var 301,5 milljarðar og minnkaði um 136 milljarða króna miðað við sama tímabil árið áður eða um 31% á gengi hvors árs. Vó þar þyngst að útgjöld Íslendinga á ferðalögum erlendis drógust saman um 63% á umræddu 12 mánaða tímabili. Útgjöld vegna samgangna og flutninga drógust svo saman um 27% á meðan þjónustuinnflutningur á annarri viðskiptaþjónustu jókst um 9%.
Verðmæti útflutnings og innflutnings á þjónustu (milljarðar króna) | ||||||
4.ársfj. 2019 | 4.ársfj. 2020 | Breyting % | 1. ársfj. 2019 - 4. ársfj. 2019 | 1. ársfj. 2020 - 4. ársfj. 2020 | Breyting % | |
Þjónustuútflutningur | 173,1 | 103,3 | -40 | 697,4 | 374,3 | -46 |
Samgöngur og flutningar | 41,3 | 20,0 | -52 | 196,8 | 91,3 | -54 |
Ferðalög | 61,9 | 6,8 | -89 | 330,4 | 86,5 | -74 |
Gjöld fyrir notkun hugverka | 28,5 | 37,0 | 30 | 35,0 | 50,9 | 46 |
Önnur viðskiptaþjónusta | 17,5 | 17,4 | -1 | 48,5 | 61,8 | 27 |
Aðrir þjónustuliðir | 23,9 | 22,1 | -7 | 86,7 | 83,8 | -3 |
Þjónustuinnflutningur | 111,6 | 76,9 | -31 | 437,5 | 301,5 | -31 |
Samgöngur og flutningar | 18,4 | 14,6 | -21 | 83,5 | 61,0 | -27 |
Ferðalög | 46,8 | 10,9 | -77 | 185,1 | 69,0 | -63 |
Önnur viðskiptaþjónusta | 20,7 | 24,0 | 16 | 66,7 | 72,8 | 9 |
Aðrir þjónustuliðir | 25,6 | 27,3 | 6 | 102,1 | 98,7 | -3 |
Þjónustujöfnuður | 61,5 | 26,4 | 259,9 | 72,8 |
Mánaðarlegur vöru- og þjónustujöfnuður
Samhliða ársfjórðungsútgáfu á vöruviðskipta- og þjónustujöfnuði uppfærir Hagstofan gögn um mánaðarlegan vöruviðskipta- og þjónustujöfnuð á fjórða ársfjórðungi 2020. Í desember var áætlað verðmæti útflutnings fyrir vöru- og þjónustuviðskipti 111,9 milljarðar króna en áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 88,4 milljarðar króna. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður jákvæður um 23,5 milljarða króna í desember 2020.
*Samkvæmt stöðlum greiðslujafnaðar og þjóðhagsreikninga.