Þjónustuútflutningur var áætlaður 142,5 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi 2021 en þjónustuinnflutningur 122,5 milljarðar. Þjónustujöfnuður var því áætlaður jákvæður um 20,1 milljarð króna en var jákvæður um 26 milljarða á sama tíma árið áður. Á tólf mánaða tímabili, frá janúar 2021 til desember 2021, var þjónustujöfnuður jákvæður um 94,8 milljarða króna en var jákvæður um 69,3 milljarð tólf mánuðina þar á undan.
Verðmæti þjónustuútflutnings jókst um 24% árið 2021
Verðmæti þjónustuútflutnings á fjórða ársfjórðungi jókst um 37,6 milljarða króna, eða um 36%, frá fjórða ársfjórðungi 2020 á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum jukust mikið eins og undanfarna ársfjórðunga samanborið við fjórða ársfjórðung 2020 eða um 39,1 milljarð. Tekjur af samgöngum og flutningum jukust um um 12,4 milljarða eða um 61%. Á móti kemur að útflutningstekjur af gjöldum fyrir notkun hugverka drógust saman um 44% á fjórða ársfjórðungi 2021 borið saman við sama ársfjórðung árið áður. Þennan samdrátt má einkum rekja til minnkandi tekjufrærslna í tenglsum við lyfjaiðnað.
Verðmæti þjónustuútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá janúar 2021 til desember 2021, var 468,7 milljarðar króna og jókst um 89,9 milljarða miðað við sama tímabil árið áður eða um 24% á gengi hvors árs. Vöxtur í útflutningstekjum af ferðalögum á sama tímabili nam 79,4 milljörðum eða um 92%. Útflutningstekjur af samgöngum og flutningum jukust einnig, eða um 28%. Hins vegar drógust útflutningstekjur af annari viðskiptaþjónustu saman um 8% og útflutningstekjur af gjöldum vegna notkunnar hugverka um 24%. Eins og áður hefur verið nefnt má rekja þennan samdrátt í útflutningstekjufærslum í tengslum við lyfjaiðnað.
Verðmæti þjónustuinnflutnings jókst um 21% árið 2021
Verðmæti þjónustuinnflutnings á fjórða ársfjórðungi jókst um 43,5 milljarða króna, eða um 55%, frá fjórða ársfjórðungi 2020 á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis jukust um 26,1 milljarð og meira en þrefölduðust samanborið við fjórða ársfjórðung 2020. Útgjöld vegna samgangna og flutninga jukust einnig nokkuð á milli ára, um 9,1 milljarð eða 62%. Hins vegar stóðu útgjöld vegna annarrar viðskiptaþjónustu nánast í stað á fjórða ársfjórðungi 2021 samanborðið við fjórða ársfjórðung 2020.
Verðmæti þjónustuinnflutnings á tólf mánaða tímabili, frá janúar 2021 til desember 2021, var 373,9 milljarðar króna og jókst um 64,4 milljarða miðað við sama tímabil árið áður eða um 21% á gengi hvors árs. Vó þar þyngst að útgjöld Íslendinga á ferðalögum erlendis jukust um 34%, útgjöld vegna samgangna og flutninga jukust um 24% og útgjöld vegna annarrar viðskiptaþjónustu um 14%.
Vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður um 68,8 milljarða árið 2021
Vöruútflutningur í greiðslujöfnuði* var áætlaður 222,1 milljarður króna á fjórða ársfjórðungi 2021 en vöruinnflutningur 260,8 milljarðar. Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 38,7 milljarða króna.
Á fjórða ársfjórðungi 2021 var því áætlað verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 364,7 milljarðar króna samanborið við 278,4 milljarða á fjórða ársfjórðungi árið áður á gengi hvors árs. Á sama tíma var áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 383,2 milljarðar samanborið við 268 milljarða á sama tíma árið áður. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður neikvæður um 18,6 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2021 en var jákvæður um 10,5 milljarða á sama tíma 2020.
Árið 2021 var vöru- og þjónustujöfnuðurinn neikvæður um 68,8 milljarða króna en var neikvæður um 22,1 milljarð árið 2020.
Mánaðarlegur vöru- og þjónustujöfnuður
Samhliða ársfjórðungsútgáfu á vöruviðskipta- og þjónustujöfnuði uppfærir Hagstofan gögn um mánaðarlegan vöruviðskipta- og þjónustujöfnuð á fjórða ársfjórðungi 2021. Í desember var áætlað verðmæti útflutnings vegna vöru- og þjónustuviðskipta 132,4 milljarðar króna en áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 129 milljarðar. Vöru- og þjónustujöfnuður var því áætlaður jákvæður um 3,4 milljarða króna í destember 2021.
Meðferð leigusamninga er tengjast utanríkisverslun eru til endurskoðunar og getur sú endurskoðun haft áhrif á bæði vöruskipta- og þjónustujöfnuð.
*Samkvæmt stöðlum greiðslujafnaðar og þjóðhagsreikninga.
Talnaefni
Vöru- og þjónustuviðskipti
Vöruviðskipti