Samkvæmt bráðabirgðatölum var vöru- og þjónustujöfnuður á fjórða ársfjórðungi 2018, eins og hann birtist í þjóðhagsreikningum og greiðslujöfnuði, neikvæður um 3,5 milljarða króna en hann var jákvæður um 14,2 milljarða á sama tíma árið 2017, á gengi hvors árs. Umreiknaður vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um 37 milljarða króna en þjónustujöfnuður var hagstæður um 33,4 milljarða. Heildarútflutningstekjur á fjórða ársfjórðungi 2018, vegna vöru- og þjónustuviðskipta, námu tæpum 329,5 milljörðum króna en heildarinnflutningur á vörum og þjónustu nam rúmum 333 milljörðum króna.

Ef skoðaðar eru bráðabirgðatölur fyrir árið 2018 í heild, var vöru- og þjónustujöfnuður 2018 jákvæður um 86,5 milljarða samanborið við 106,8 milljarða fyrir 2017. Heildarútflutningstekjur árið 2018 vegna vöru- og þjónustuviðskipta námu 1.323,4 milljörðum króna en heildarinnflutningur nam 1.236,8 milljörðum króna.

Samhliða ársfjórðungsútgáfu á vöruviðskipta- og þjónustujöfnuði uppfærir Hagstofan gögn um mánaðarlegan vöruviðskipta-og þjónustujöfnuð fyrir 2018. Áður höfðu fyrstu ellefu mánuðir ársins verið gefnir út en í þessari útgáfu bætast við tölur fyrir desember. Í desember er áætlað verðmæti útflutnings fyrir vöru- og þjónustuviðskipti 103,5 milljarður en áætluð verðmæti innflutnings fyrir vöru- og þjónustuviðskipti 104,1 milljarðar. Vöru og þjónustujöfnuður er því áætlaður neikvæður um 0,5 milljarða í desember 2018.

Þessar upplýsingar koma fram í brúartöflum á vef Hagstofunnar sem samræmir staðla vöruviðskipta og greiðslujafnaðar.

Talnaefni