Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir desember 2008 nam útflutningur fob 54,0 milljörðum króna og innflutningur fob 29,9 milljörðum króna. Vöruskiptin í desember, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um 24,1 milljarð króna samkvæmt bráðabirgðatölum. Mánaðarlegar tölur um vöruskiptin á föstu gengi eru til síðan 1992 og hefur afgangur á vöruskiptunum í einum mánuði ekki verið stærri á því tímabili. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir desember gæti hallinn á vöruskiptunum við útlönd á árinu 2008 því verið um 4,8 milljarðar. Niðurstaða ársins byggð á bráðabirgðatölum er hinsvegar mikilli óvissu háð þar sem tölur gætu breyst vegna ársyfirferðar auk þess sem uppgjör verslunar með skip og flugvélar er ekki fyrirliggjandi nú.
Vísbendingar eru um meira verðmæti útfluttra sjávarafurða og áls en minna verðmæti innflutts eldsneytis, hrá og rekstrarvara og neysluvara annarra en mat- og drykkjarvara í desember 2008 miðað við nóvember 2008.
Breyting á útgáfu árstalna fyrir árið 2008
Hagstofan hefur ákveðið að flýta útgáfu talna fyrir árið 2008 og gefa út sundurliðaðar bráðabirgðatölur þann 30. janúar næstkomandi. Fyrirhuguð fréttatilkynning þann 20. febrúar fellur því niður og verða endanlegar tölur fyrir árið 2008 birtar samhliða útgáfu Hagtíðinda 22. apríl næstkomandi.