Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir desember 2019 nam fob verðmæti vöruútflutnings 44,1 milljarði króna og fob verðmæti vöruinnflutnings 52,4 milljörðum króna. Vöruviðskiptin í desember, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 8,3 milljarða króna. Í desember 2018 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 11,2 milljarða króna á gengi hvors árs.

Í desember 2019 var verðmæti vöruútflutnings 9,0 milljörðum króna lægri en í desember 2018, eða 17,0% á gengi hvors árs. Minni viðskipti voru í nær öllum flokkum en mestu munaði í viðskiptum með sjávarafurðir og iðnaðarvörur.

Verðmæti vöruinnflutnings í desember 2019 var 11,9 milljörðum króna lægra en í desember 2018, eða 18,5% á gengi hvors árs. Lækkun var í flestum flokkum en mest var lækkunin í viðskiptum með hrá- og rekstarvörur og eldsneyti.

Við birtingu bráðabirgðatalna í desember gefst tækifæri til að skoða árið í heild. Á árinu 2019 voru fluttar út vörur fyrir 642,5 milljarða króna sem er 7% aukning frá fyrra ári. Verðmæti innflutnings var 751,6 milljarðar króna fob sem er 3% minnkun frá fyrra ári. Halli á vöruviðskiptum við útlönd nam því 109,1 milljarði króna árið 2019, reiknað á fob verðmæti. Á árinu 2018 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 174,4 milljarða króna á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruviðskiptajöfnuðurinn á árinu 2019 gæti því orðið 65,3 milljörðum króna hagstæðari en á árinu 2018 ef þessar tölur ganga eftir.

Hafa skal í huga að hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Niðurstöður gætu breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar.

Útflutningur, innflutningur og vöruviðskiptajöfnuður 2015–2019, fob-verð í milljörðum króna

Talnaefni