Fluttar voru út vörur fyrir 762,4 milljarða króna árið 2021 og inn fyrir 994,3 milljarða króna cif (926,5 milljarða króna fob). Vöruviðskiptin 2021, reiknuð á cif verðmæti, voru því óhagstæð um 231,8 milljarða króna.1 Vöruskiptahallinn 20212 var 86,6 milljörðum króna meiri en árið 2020 þegar vöruviðskiptin voru óhagstæð um 145,3 milljarða á gengi hvors árs.
Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 32,9% á milli ára
Verðmæti vöruútflutnings árið 2021 var 136,2 milljörðum hærra en árið 2020 sem jafngildir hækkun um 21,8% á milli ára. Iðnaðarvörur voru 52,0% alls útflutningsverðmætis á síðasta ári en verðmæti þeirra jókst um 32,9% samanborið við árið 2020. Útflutningur á áli og álafurðum átti stærsta hlutdeild í útflutningi á iðnaðarvörum árið 2021 eða 37,3% af heildarútflutningsverðmæti. Verðmæti útfluttra sjávarafurða var 38,8% af heildarútflutningsverðmæti og jókst um 7,4% frá fyrra ári. Stærstu hlutdeild í útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2021 áttu ferskur fiskur (11,3%) og fryst flök (9,6%). Stærstu viðskiptalönd í vöruútflutningi árið 2021 voru Holland, Spánn og Bretland eins og svo oft áður. Alls fóru 68,8% alls útflutnings til ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Aukinn innflutningur í öllum flokkum
Árið 2021 var verðmæti vöruinnflutnings 222,8 milljörðum króna hærra en árið 2020 eða 28,9% á gengi hvors árs. Mestu munaði um innflutning á flutningatækjum og fjárfestingavörum. Stærstu hlutdeild í innflutningsverðmæti áttu hrá- og rekstrarvörur (28,8%) og fjárfestingarvörur (22,6%). Stærstu viðskiptalönd í vöruinnflutningi árið 2020 voru, Noregur, Kína og Þýskaland. Verðmæti innflutnings frá ríkjum innan EES nam 57,5% alls innflutnings árið 2021.
1 Meðferð leigusamninga er tengjast utanríkisverslun eru til endurskoðunar og getur sú endurskoðun haft áhrif á bæði vöruskipta- og þjónustujöfnuð.
2 Gögn fyrir árið 2020 voru endurskoðuð í maí 2022.