Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var leiðrétt 30. september 2022 frá upprunalegri útgáfu. Innflutningstölur voru leiðréttar sem þýddi að vöruskiptajöfnuður varð óhagstæður um 16,9 milljarðar en var sagður óhagstæður um 23,3 milljarða í upprunalegri útgáfu fréttatilkynningarinnar.
Fluttar voru út vörur fyrir 94,1 milljarða króna fob í ágúst 2022 og inn fyrir 110,9 milljarða króna cif (105,9 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í ágúst, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 16,9 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 30,9 milljarða króna í ágúst 2021 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í ágúst 2022 er því 14,1 milljarði hagstæðari en á sama tíma fyrir rúmu ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 240,3 milljarða króna sem er 46,6 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.
Verðmæti útflutnings jókst um 32,8% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í ágúst 2022 jókst um 37,6 milljarða króna, eða um 66,6%, frá ágúst 2021, úr 56,5 milljörðum króna í 94,1 milljarð. Mest var auking í verðmæti útfluttra iðnaðarvara, 25,5 milljarðar króna eða 83,8% samanborið við ágúst 2021.
Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili frá september 2021 til ágúst 2022 var 942,1 milljarðar króna og jókst um 232,6 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 32,8% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 57,1% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði og jókst verðmæti þeirra um 57,1% frá fyrra tólf mánaða tímabili. Sjávarafurðir voru 35,1% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 10,9% í samanburði við fyrra tólf mánaða tímabil. Verðmæti útflutnings á eldisfiski jókst um þrjá milljarða á milli tólf mánaða tímabila, eða um 8,2%, og er nú 4,3% af heildarútflutningsverðmæti á síðustu tólf mánuðum.
Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 30,9% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 110,9 milljörðum króna í ágúst 2022 samanborið við 87,4 milljarða í ágúst 2021 og jókst því um 23,5 milljarða króna eða um 26,9%. Verðmæti hrá- og rekstrarvöru nam 32,3 milljörðum króna og jókst um 10 milljarða (45,1%), verðmæti fjárfestingarvara (utan flutningstækja) var 27,6 milljarðar króna sem er aukning um 7,4 milljarða króna (36,3%) og verðmæti innflutts eldsneytis nam 14,2 milljörðum og jókst um 4,6 milljarða króna (47,6%) samanborið við ágúst 2021.
Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili frá september 2021 til ágúst 2022 var 1.182,3 milljarðar króna og jókst um 279,2 milljarða miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 30,9% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin á tímabilinu var mest í hrá- og rekstrarvörum, eldsneyti og fjárfestingavörum.
Meðaltal gengisvísitölu á tólf mánaða tímabili var 191,2 og var gengið 4,2% sterkara en á tólf mánaða tímabili ári fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 199,7. Gengið styrktist um 2,2% í ágúst (189,5) samanborið við ágúst 2021 (193,8).
Meðferð leigusamninga er tengjast utanríkisverslun er til endurskoðunar og getur sú endurskoðun haft áhrif á bæði vöruskipta- og þjónustujöfnuð.
Í þessari frétt er um bráðabirgðatölur fyrir ágúst að ræða og gætu niðurstöður breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar. Þá verður talnaefni uppfært.