FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 28. JÚNÍ 2024

Fluttar voru út vörur fyrir 939,1 milljarð króna fob árið 2023 og inn fyrir 1.306,3 milljarða króna cif (1.236,1 milljarð króna fob). Vöruviðskiptin 2023, reiknuð á fob/cif verðmæti, voru því óhagstæð um 367,3 milljarða króna. Vöruskiptahallinn 2023 var fyrir vikið 75,9 milljörðum króna meiri en árið 2022 þegar vöruviðskiptin voru óhagstæð um 291,4 milljarða á gengi hvors árs.

Verðmæti útfluttra iðnaðarvara minnkaði um 13% á milli ára
Verðmæti vöruútflutnings árið 2023 var 75,1 milljarði minna en árið 2022 sem jafngildir minnkun um 7% á milli ára. Iðnaðarvörur voru 53,1% alls útflutningsverðmætis á síðasta ári en verðmæti þeirra minnkaði um 13% samanborið við árið 2022. Útflutningur á áli og álafurðum átti stærsta hlutdeild í útflutningi á iðnaðarvörum árið 2023 eða 34,5% af heildarútflutningsverðmæti. Verðmæti útfluttra sjávarafurða var 37,6% af heildarútflutningsverðmæti og minnkaði um 2% frá fyrra ári. Mesta hlutdeild í útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2023 áttu ferskur fiskur (9,4%) og fryst flök (8,9%). Stærstu viðskiptalönd í vöruútflutningi árið 2023 voru Holland, Bandaríkin og Bretland . Alls fóru 78% alls útflutnings til ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Verðmæti innflutnings nánast óbreytt á milli ára
Árið 2023 var verðmæti vöruinnflutnings 784 milljónum króna meira en árið 2022 á gengi hvers árs. Verðmæti innflutnings matvæla og drykkjarvöru jókst um 13% en verðmæti eldsneytis dróst saman um 12% á milli ára. Stærstur hlutur innflutningsverðmætis var vegna hrá- og rekstrarvara (26,0%) og fjárfestingarvara (23,8%). Stærstu viðskiptalöndin í vöruinnflutning árið 2023 voru Noregur, Þýskaland og Kína. Verðmæti innflutnings frá löndum innan EES nam 62% af öllum innflutningi árið 2023.

Endurskoðaðar tölur frá árinu 2015
Gögn um útflutning hafa verið endurskoðuð aftur til ársins 2015 vegna nýrra gagna um útflutning á sjávarafurðum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.