FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 04. FEBRÚAR 2021

Vakin er sérstök athygli á breyttri framsetningu þessarar fréttar sem fjallað er nánar um síðar í henni. Fluttar voru út vörur fyrir 49,2 milljarða króna í janúar 2021 og inn fyrir 47,3 milljarða króna cif (44 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í janúar, reiknuð á fob/cif verðmæti, voru því hagstæð um 1,9 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin reiknuð á fob/cif verðmæti óhagstæð um 8,7 milljarða króna í janúar 2020 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruviðskiptajöfnuðurinn í janúar 2021 var því 10,6 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruviðskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 140,1 milljarða en þó 58,9 milljörðum króna hagstæðari en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings jókst á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í janúar 2021 jókst um 2,2 milljarða, eða um 4,7% frá janúar 2020, úr 47,0 milljörðum króna í 49,2 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 1,9 milljarða króna, eða 7,6% samanborið við janúar 2020, en samdráttur varð í útflutningsverðmæti sjávarafurða um 1,1 milljarð (5,8%).

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá febrúar 2020 til janúar 2021, var 623,2 milljarðar króna og hækkaði um 10,9 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 1,8% á gengi hvors árs. Munar þar mestu um aukið verðmæti í útflutningi sjávarafurða og landbúnaðarvara, þar með talið í fiskeldi. Iðnaðarvörur voru 48,3% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánaði og var verðmæti þeirra 0,4% minna en á tólf mánaða tímabili þar á undan. Sjávarafurðir voru 43,1% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 5,0% á milli tólf mánaða tímabila.

Verðmæti vöruinnflutnings dróst saman um 5,9% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 47,3 milljörðum króna í janúar 2021 samanborið við 55,7 milljarða króna í janúar 2020. Verðmæti innflutts eldsneytis og smurolíu dróst saman um 55,7% og verðmæti flutningatækja var 48,6% lægra en í janúar 2020. Verðmæti innfluttra hrá- og rekstrarvara jókst hinsvegar um 13,3% samanborið við janúar 2020.

Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var 763,2 milljarðar og lækkaði um 48,0 milljarða króna miðað við tólf mánuði þar á undan eða 5,9% á gengi hvors árs fyrir sig. Mestu munar um samdrátt í innflutningi á eldsneyti.

Vert er að hafa í huga að hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Niðurstöður gætu breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar einkum í innflutningi með viðbótargögnum frá Skattinum.

Breytt framsetning
Hagstofa Íslands hefur samkvæmt hefðum innanlands birt vöruviðskiptajöfnuð út frá fob-verðmætum.1 Við birtingu á gögnum fyrir árið 2021 verður breyting þar á í samræmi við alþjóðlega staðla um vöruviðskipti. Vöruviðskiptajöfnuður verður reiknaður út frá fob verðmætum útflutnings og cif-verðmætum2 innflutnings. Umfjöllun í fréttatilkynningum um vöruviðskipti munu því breytast í samræmi við breyttar áherslur.

Ný tafla er aðgengileg á vef Hagstofu Íslands undir heitinu Verðmæti út- og innflutnings eftir mánuðum 2011-2021 (FOB/CIF) (UTA06001.px) og kemur hún í stað taflnanna: Verðmæti út- og innflutnings eftir mánuðum 2010-2020 (UTA06004.px) og Vöruviðskipti við útlönd, bráðabirgðatölur mánaðar (UTA01100.px).

Á nýju ári verður einnig tekin upp sú nýbreytni að mánaðarleg birting bæði lokatalna og bráðabirgðatalna verður miðuð við breytingu síðustu tólf mánaða. Í þessari frétt er tólf mánaða tímabilið febrúar 2020 til janúar 2021 borið saman við tímabilið febrúar 2019 til janúar 2020. Jafnframt verður gerður samanburður á milli sömu mánaða eins og verið hefur.

Verðmæti út- og innflutnings á tólf mánaða tímabili
Milljarðar króna á gengi hvors ársfebrúar 2019 - janúar 2020febrúar 2020 - janúar 2021Breyting frá fyrra tímabili (%)
Útflutningur alls612,2 623,2 1,8
Sjávarafurðir256,1 268,9 5,0
Landbúnaðarafurðirþ.m.t. fiskeldi30,7 36,2 18,0
Iðnaðarvörur302,0 300,7 -0,4
Aðrar vörur23,4 17,4 -25,4
Innflutningur alls811,2 763,2 -5,9
Matvörur og drykkjarvörur77,7 80,7 3,7
Hrávörur og rekstrarvörur, ót.a.235,0 237,1 0,9
Eldsneyti og smurolíur99,5 46,0 -53,8
Fjárfest.vörur (þó ekki flutn.tæki)174,3 172,4 -1,1
Flutningatæki111,5 94,0 -15,7
Neysluvörur ót.a.112,7 132,5 17,5
Vörur ót.a (t.d. endursendar vörur)0,4 0,6 36,3
Vöruskiptajöfnuður-199,0 -140,1

1 FOB (free on board) felur í sér að seljandi ber kostnað af því að koma vörunni til hafnar og um borð í flutningaskip. Þar tekur kaupandi við henni og greiðir meðal annars fyrir að flytja hana með skipinu og raunar allan kostnað sem fellur til eftir að varan er komin um borð í skip.
2 CIF (cost, insurance, freight) felur í sér að seljandi ber kostnað af því að koma vörunni til tiltekinnar hafnar og að tryggja hana á leiðinni en kaupandi tekur þar við vörunni og greiðir meðal annars innflutningsgjöld ef einhver eru.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281153 , netfang utanrikisverslun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.