Fluttar voru út vörur fyrir 93,1 milljarð króna fob í maí 2022 og inn fyrir 121,4 milljarða króna cif (109,3 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í maí, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 28,3 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 14,8 milljarða króna í maí 2021 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í maí 2022 var því 13,5 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir rúmu ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 264,4 milljarða króna sem er 106,5 milljarða króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.
Verðmæti útflutnings jókst um 31,1% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í maí 2022 jókst um 30,9 milljarða króna, eða um 49,6%, frá maí 2021, úr 62,3 milljörðum króna í 93,1 milljarð. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 25,0 milljarða króna eða 89,3% samanborið við maí 2021.
Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili var 872,5 milljarðar króna og jókst um 206,8 milljarða króna miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða um 31,1% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 56% alls vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili og var verðmæti þeirra 57,2% meira en á tólf mánaða tímabili ári fyrr. Sjávarafurðir voru 36% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 6,6% á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 7,2 milljarða á milli tólf mánaða tímabila, eða um 21,7%, og mælist 5% af heildarútflutningsverðmæti á tólf mánaða tímabili.
Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 38,1% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 121,4 milljörðum króna í maí 2022 samanborið við 77,0 milljarða í maí 2021 og jókst um 44,4 milljarða króna eða 57,7%. Verðmæti eldsneytis jókst um 16,7 milljarða króna (482%), verðmæti hrá- og rekstrarvöru jókst um 14,3 milljarða (63,6%) og verðmæti fjárfestingarvara (utan flutningstækja) um 6,4 milljarða.
Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili var 1.136,9 milljarðar króna og jókst um 313,4 milljarða króna miðað við tólf mánaða tímabili ári fyrr eða 38,1% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin á tímabilinu var mest í flutningatækjum, hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti.
Meðaltal gengisvísitölu1 á tólf mánaða tímabili var 192,5 og var gengið 5,0% sterkara en á tólf mánaða tímabili ári fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 202,7. Gengið styrktist um 4,6% í maí (185,3) samanborið við maí 2021 (194,2).
Meðferð leigusamninga er tengjast utanríkisverslun eru til endurskoðunar og getur sú endurskoðun haft áhrif á bæði vöruskipta- og þjónustujöfnuð.
Í þessari frétt er um bráðabirgðatölur fyrir maí að ræða og gætu niðurstöður breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar. Þá hefur eldra talnaefni verið uppfært.
1 Heimild: Seðlabanki Íslands - Gengisvísitala (Vísitala meðalgengis - viðskiptavog þröng).