FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 05. JANÚAR 2023

Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var leiðrétt 11. janúar 2023. Fluttar voru inn vörur fyrir 107 milljarða króna fob en ekki 111,7 milljarða eins og kom fram í upprunalegri útgáfu.

Fluttar voru út vörur fyrir 101,2 milljarða króna fob í desember 2022 og inn fyrir 114 milljarða króna cif (107 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í desember, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 12,8 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 18 milljarða króna í desember 2021 á gengi hvors árs fyrir sig.

Vöruskiptajöfnuðurinn í desember 2022 var því 5,3 milljörðum hagstæðari en á sama tíma fyrir rúmu ári. Vöruskiptajöfnuður árið 2022 var því óhagstæður um 323 milljarða króna sem er 91,1 milljarði króna óhagstæðari jöfnuður en á árinu 2021.

Verðmæti útflutnings jókst um 31,5% á seinasta ári
Verðmæti vöruútflutnings í desember 2022 jókst um 25,1 milljarð króna, eða um 32,9%, frá desember 2021, úr 76,2 milljörðum króna í 101,2 milljarða. Mesta aukingin á milli ára var verðmæti útfluttra iðnaðarvara sem hækkaði um 13 milljarða króna, eða um 28,2% samanborið við desember 2021, en þær voru 58,5% af heildarútflutningi. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 2,4 milljarða króna, eða um 75% samanborið við desember 2021, og var 5,5% af heildarútflutningi.

Verðmæti vöruútflutnings á árinu 2022 var 1.002,3 milljarðar króna og jókst um 240 milljarða króna miðað við árið 2021 eða um 31,5% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 57% alls vöruútflutnings á árinu og jókst verðmæti þeirra um 43,9% samanborið við fyrra ár. Sjávarafurðir voru 35% alls vöruútflutnings en verðmæti þeirra jókst um 18% í samanburði við árið 2021.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 33,3% á seinasta ári
Verðmæti vöruinnflutnings nam 114 milljörðum króna í desember 2022 samanborið við 94,2 milljarða í desember 2021 og jókst því um 19,8 milljarða króna eða um 21%. Verðmæti hrá- og rekstrarvöru nam 32,2 milljörðum króna og jókst um 1,4 milljarða (4,4%), verðmæti fjárfestingarvara (utan flutningstækja) nam 26,7 milljörðum króna sem er aukning um 7,2 milljarða króna (37,1%) og verðmæti innfluttra flutningstækja nam 20 milljörðum og jókst um 5,9 milljarða króna (41,7%) samanborið við desember 2021.

Verðmæti vöruinnflutnings á árinu 2022 var 1.325,3 milljarðar króna og jókst um 331 milljarð miðað við árið 2021 eða um 33,3% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin var mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingavörum.

Meðaltal gengisvísitölu1 á árinu 2022 var 190,2 og var gengið 3% sterkara en á árinu 2021 fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 196,1. Gengið styrktist um 2,6% í desember (199,6) samanborið við desember 2021 (194,5).

Í þessari frétt er um að ræða bráðabirgðatölur fyrir desember og gætu niðurstöður breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar. Þá hefur eldra talnaefni verið uppfært.

Meðferð leigusamninga er tengjast utanríkisverslun er til endurskoðunar og mun sú endurskoðun hafa áhrif á bæði vöruskipta- og þjónustujöfnuð.

1 Heimild: Seðlabanki Íslands - Gengisvísitala (Vísitala meðalgengis - viðskiptavog þröng).

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281157 , netfang utanrikisverslun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.