Fluttar voru út vörur fyrir 83,3 milljarða króna fob í nóvember 2024 og inn fyrir 114,9 milljarða cif (109,3 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í nóvember, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 31,6 milljarða króna.
Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 21,2 milljarða króna í nóvember 2023 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í nóvember 2024 var því 10,4 milljörðum króna óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánuði var óhagstæður um 388,3 milljarða króna sem er 36,8 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.
Verðmæti útflutnings dróst saman um 2% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í nóvember 2024 var 5,9 milljörðum króna minni (7%) en í nóvember 2023, fór úr 89,2 milljörðum króna í 83,3 milljarða.
Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili var 944,4 milljarðar króna og dróst saman um 22,9 milljarða miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða um 2% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 54% alls vöruútflutnings og verðmæti þeirra dróst saman um 1% samanborið við tólf mánaða tímabil ári fyrr. Sjávarafurðir voru 36% alls vöruútflutnings og verðmæti þeirra dróst saman um 7% í samanburði við tólf mánaða tímabil ári fyrr.
Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 1% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 114,9 milljörðum króna í nóvember 2024 samanborið við 110,5 milljarða í nóvember 2023 og jókst því um 4,5 milljarða króna eða um 4%.
Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili var 1.332,7 milljarðar króna og jókst um 13,8 milljarða miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða um 1% á gengi hvors árs fyrir sig. Samdráttur var í innflutningi á flutningatækjum og á eldsneyti og smurolíum en á móti kom aukning á innflutningi á öðrum liðum, mest þó á fjárfestingarvörum.
Meðaltal gengisvísitölu síðustu tólf mánaða var 195,7 og var gengið 0,2% veikara en á tólf mánaða tímabili ári fyrr þegar meðaltal gengisvísitölu var 195,4. Gengið var 2,6% sterkara í nóvember 2024 (192,4) samanborið við nóvember 2023 (197,5).
Mánaðarlega færir Hagstofan inn upplýsingar frá Póstinum um verðmæti innflutnings með póstsendingum. Hagstofunni voru að berast þær upplýsingar að sá innflutningur hafi verið ofmetinn allt árið 2024. Ofmatið er að meðaltali tæpur milljarður á mánuði og verður leiðrétt fyrir útgáfu lokatalna í byrjun janúar.
Í þessari frétt er um að ræða bráðabirgðatölur fyrir nóvember og gætu niðurstöður breyst eftir endurskoðun í upphafi næsta mánaðar.