FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 31. MAÍ 2021

Fluttar voru út vörur fyrir 61,5 milljarða króna fob í apríl 2021 og inn fyrir 72,6 milljarða króna cif (67,6 milljarða króna fob). Vöruviðskiptin í apríl, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 11,2 milljarða króna. Vöruviðskipti í apríl eru því 4 milljörðum óhagstæðari en samkvæmt bráðabirgðatölum sem birtar voru í upphafi mánaðar. Skýrist sá munur nær eingöngu af auknu verðmæti í innflutningi á skipum sem nam alls 5 milljörðum í apríl.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin reiknuð á fob/cif-verðmæti óhagstæð um 7,3 milljarða króna í apríl 2020 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuður í apríl 2021 var því 3,9 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 154,3 milljarða króna sem er 27,5 milljörðum hagstæðari en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti útflutnings jókst um 5,6% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í apríl 2021 jókst um 14,1 milljarð króna, eða um 29,8%, frá apríl 2020, úr 47,3 milljörðum króna í 61,5 milljarða. Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um 9,5 milljarða (53,5%), munar þar mestu um aukið verðmæti loðnu. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 2,6 milljarða króna eða 9,6% samanborið við apríl 2020 og munar þar mestu um aukið útflutningsverðmæti áls.

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá maí 2020 til apríl 2021, var 648,7 milljarðar króna og hækkaði um 34,3 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 5,6% á gengi hvors árs.. Iðnaðarvörur voru 47,5% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánaði og var verðmæti þeirra 1,5% meira en á tólf mánaða tímabili þar á undan. Sjávarafurðir voru 43,4% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 9,4% á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 6,2 milljarða, eða 23,7%, á sama tímabili.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 0,8% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 72,6 milljörðum króna í apríl 2021 samanborið við 54,6 milljarða í apríl 2020. Verðmæti hrá- og rekstrarvara jókst um 24,5%, verðmæti bensíns og gasolía jókst um einn og hálfan milljarð frá því í apríl í fyrra og neysluvörur um tæpa tvo milljarða. Að auki var verðmæti innfluttra skipa rúmir fimm milljarðar sem er fjögurra milljarða aukning frá birtingu bráðabirgðatalna í byrjun mánaðar. Aðrir liðir tóku minni breytingum.

Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var 803,0 milljarðar króna og jókst um 6,7 milljarða króna miðað við tólf mánuði þar á undan eða 0,8% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin á þessu tólf mánaða tímabili er mest í neysluvörum, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingarvörum en á móti er samdráttur í eldsneyti og flutningatækjum.

Hafa má í huga að gengisvísitala1 hækkaði um 10,1% á þessu tólf mánaða tímabili en gengið styrktist aftur á móti um 4,5% á milli apríl 2020 og 2021.

Verðmæti út- og innflutnings á tólf mánaða tímabili
Milljarðar króna á gengi hvors ársMaí 2019-apr 2020Maí 2020-apr 2021Breyting %
Útflutningur alls fob614,4648,75,6
Sjávarafurðir257,5281,89,4
Landbúnaðarvörur (þ.m.t. eldisfiskur)32,140,024,6
Iðnaðarvörur303,8308,41,5
Aðrar vörur21,018,4-12,2
Innflutningur alls cif796,3803,00,8
Matvörur og drykkjarvörur80,682,62,5
Hrávörur og rekstrarvörur, ót.a.226,3248,59,8
Eldsneyti og smurolíur92,045,4-50,7
Fjárfest.vörur (þó ekki flutn.tæki)167,8186,211,0
Flutningatæki115,197,8-15,0
Neysluvörur ót.a.114,1141,924,4
Vörur ót.a (t.d. endursendar vörur)0,40,638,7
Vöruskiptajöfnuður-181,9-154,3 

1 Heimild: Seðlabanki Íslands- Gengisvísitala (Vísitala meðalgengis - viðskiptavog þröng).

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281152 , netfang utanrikisverslun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.