FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 26. NÓVEMBER 2020

Fluttar voru út vörur fyrir 61,4 milljarða króna í október 2020 og inn fyrir 68,6 milljarða króna fob (74,2 milljarða króna cif). Vöruviðskiptin í október, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 7,1 milljarð króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 0,8 milljarða króna í október 2019 á gengi hvors árs fyrir sig.¹ Vöruviðskiptajöfnuðurinn í október 2020 var því 6,3 milljörðum króna óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Viðskipti með skip og flugvélar höfðu óveruleg áhrif á vöruviðskiptajöfnuðinn þennan mánuð. Vöruskiptajöfnuður tímabilið janúar-október 2020 var óhagstæður um 89,8 milljarða eða 9,4 milljörðum króna hagstæðari en á sama tímabili árið áður.

Verðmæti útflutnings dregst saman
Verðmæti vöruútflutnings var 510,6 milljarðar króna á fyrstu tíu mánuðum ársins 2020 og lækkaði um 36,2 milljarða króna miðað við sama tímabil árið áður eða 6,6% á gengi hvors árs.1 Munar þar mestu um viðskipti með skip og flugvélar í janúar 2019 og minna verðmæti í útflutningi iðnaðarvara. Iðnaðarvörur voru 48,2% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 4,8% minna en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 43,9% alls vöruútflutnings en verðmæti þeirra jókst um 0,1% á milli ára.

Verðmæti vöruinnflutnings lækkar um 45,6 milljarða
Verðmæti vöruinnflutnings var 600,4 milljarðar á fyrstu tíu mánuðum ársins 2020 og lækkaði um 45,6 milljarða króna miðað við sama tímabil fyrir ári eða 7,1% á gengi hvors árs fyrir sig.¹ Samdráttur var í öllum flokkum nema neysluvörum.

Endurskoðun utanríkisverslunartalna
Hagstofa Íslands hefur breytt fyrirkomulagi endurskoðunar utanríkisverslunartalna á þann hátt að auk hefðbundinnar útgáfu bráðabirgðatalna og endanlegra talna fyrir vöru- og þjónustuviðskipti verða tímaraðir endurskoðaðar eftir þörfum á fimm ára fresti, svokölluð meiriháttar endurskoðun (e. benchmark revision). Verður þá leitast við að innleiða breytingar vegna nýrri eða betri gagna, nýrri eða endurbættra aðferða við mat á gögnum og endurskoðun staðla og flokkunarkerfa. Hér eru birtar niðurstöður af fyrstu meiriháttar endurskoðuninni. Til samræmis við önnur Evrópulönd er næsta meiriháttar endurskoðun fyrirhuguð árið 2024 og síðan á fimm ára fresti eftir það.

Vöruviðskipti
Í meginatriðum hafa tvö markmið vegið þyngst við endurskoðun vöruviðskipta, annars vegar að koma inn leiðréttingum á eldri gögnum og hins vegar að uppfæra gögn miðað við staðal vöruviðskipta IMTS 2010 og fyrri útgáfur hans. Hvað snertir leiðréttingar á eldri gögnum hækkar verðmæti útflutnings samtals um 22,1 milljarð vegna tollskýrslna sem ýmist höfðu ekki borist Hagstofunni eða reyndust rangar. Þessar breytingar ná allt aftur til ársins 1999 en vega þyngst fyrir árin 2018-2019. Einnig tók tollasvið Skattsins upp nýja tollskýrslu fyrir innflutning á árinu 2019. Bætt var við bráðabirgðatölum um þau gögn sem tollafgreidd voru samkvæmt hinni nýju tollskýrslu og voru áhrif þessa 4,3 milljarðar árið 2019 og 24 milljarðar árið 2020. Þær tölur verða endurskoðaðar þegar betri gögn liggja fyrir.

Hvað snertir uppfærslu á gögnum vöruviðskipta miðað við staðal vöruviðskipta var bætt við vörum sem fluttar voru inn til landsins eða út úr landinu til förgunar eða endurvinnslu (árin 1999-2020). Sú breyting hefur hverfandi áhrif á verðmæti en áhrifin koma helst fram í þyngd. Einnig var bætt við innflutningi á sæstrengjum (árin 2004 og 2009) að verðmæti 16,1 milljarður. Vonir stóðu til að geta bætt við öðrum liðum sem eiga að vera meðtalin samkvæmt staðli vöruviðskipta, eins og t.d. búslóðum og gjöfum en vegna ófullnægjandi upplýsinga í tollskýrslum var fallið frá þeim áformum að þessu sinni.

Verðmæti útflutnings og innflutnings janúar-október 2019 og 2020
  Millj. kr. á gengi hvors árs Breytingar frá fyrra
ári á gengi hvors árs,
% janúar-október
Október Janúar-október
20192020 2019 2020
Útflutningur alls fob65.120,261.421,2546.778,5510.558,4-6,6
Sjávarafurðir31.620,426.886,7223.780,0224.083,50,1
Landbúnaðarvörur3.812,43.617,923.959,727.496,314,8
Iðnaðarvörur27.873,529.427,5258.666,7246.126,3-4,8
Aðrar vörur1.813,91.489,140.372,112.852,3-68,2
Innflutningur alls fob65.907,068.550,1646.040,8600.405,2-7,1
Matvörur og drykkjarvörur7.511,07.129,161.602,762.408,71,3
Hrávörur og rekstrarvörur, ót.a.16.432,920.641,9186.142,5177.222,3-4,8
Eldsneyti og smurolíur7.684,46.415,881.051,747.056,3-41,9
Fjárfest.vörur (þó ekki flutn.tæki)13.662,114.455,5142.514,1132.457,7-7,1
Flutningatæki9.899,07.478,587.505,982.142,8-6,1
Neysluvörur ót.a.10.688,912.413,886.849,698.591,113,5
Vörur ót.a (t.d. endursendar vörur)28,615,6374,3526,340,6
Vöruviðskiptajöfnuður-786,81-7.128,91-99.262,37-89.846,84 

1Hagstofa Íslands birtir ekki lengur tölur um vöruviðskipti á föstu gengi. Á vef Hagstofu Íslands er að finna töflu um hlutfall einstakra gjaldmiðla í vöruviðskiptum.
Mánaðarlegar tölur um vöruviðskipti líðandi árs eru endurskoðaðar allt árið og því geta tölur fyrri mánaða árs breyst með útgáfu nýrri mánaðartalna. Endanlegar tölur fyrir hvert ár eru gefnar út á vormánuðum næsta ár á eftir en geta breyst í framtíðar endurskoðunum gagna.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1151 , netfang utanrikisverslun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.