Fluttar voru út vörur fyrir 72,9 milljarða króna fob í október 2021 og inn fyrir 85,7 milljarða króna cif (80 milljarða króna fob). Vöruviðskiptin í október, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 12,8 milljarða króna.
Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 9,5 milljarða króna í október 2020 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í október 2021 var því 3,3 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 211,2 milljarða króna sem er 54,7 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.
Verðmæti útflutnings jókst um 19,1% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruútflutnings í október 2021 jókst um 11,5 milljarða króna, eða um 18,7%, frá október 2020, úr 61,4 milljörðum króna í 72,9 milljarða. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 11 milljarða króna, eða um 37,6% samanborið við október 2020, og munar þar mest um aukið útflutningsverðmæti áls.
Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá nóvember 2020 til október 2021, var 720,8 milljarðar króna og hækkaði um 115,8 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 19,1% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 50,7% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánaði og var verðmæti þeirra 24,1% meira en á tólf mánaða tímabili þar á undan. Sjávarafurðir voru 37,7% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 9,7% á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 8,6 milljarða, eða um 30,4%, á sama tímabili og var 5,1% af heildarútflutningsverðmæti síðustu tólf mánaða.
Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 22,4% á tólf mánaða tímabili
Verðmæti vöruinnflutnings nam 85,7 milljörðum króna í október 2021 samanborið við 70,9 milljarða í október í fyrra. Verðmæti fjárfestingavara jókst um 5 milljarða króna (32,3%), verðmæti eldsneytis jókst um 4,9 milljarða króna (133,43%) og verðmæti flutningstækja um 3,2 milljarða (41%).
Verðmæti vöruinnflutnings síðustu tólf mánuði var 932 milljarðar króna og jókst um 170,5 milljarða króna miðað við tólf mánuði þar á undan eða 22,4% á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin á þessu tólf mánaða tímabili var mest í hrá- og rekstrarvörum, fjárfestingarvörum og flutningatækjum.
Meðaltal gengisvísitölu síðustu tólf mánuði var 197,6 og var gengið 0,3% veikara en á fyrra tólf mánaða tímabili þegar meðaltal gengisvísitölu var 197,0. Gengið styrktist aftur á móti um 5,9% í október (198,4) samanborið við október 2020 (210,7).
Verðmæti út- og innflutnings á tólf mánaða tímabili | |||
Milljarðar króna á gengi hvors árs | Nóvember 2019-október 2020 | Nóvember 2020-október 2021 | Breyting, % |
Útflutningur alls fob | 605,0 | 720,8 | 19,1 |
Sjávarafurðir | 260,7 | 285,9 | 9,7 |
Landbúnaðarvörur (þ.m.t. eldisfiskur) | 34,3 | 45,5 | 32,5 |
Iðnaðarvörur | 294,5 | 365,5 | 24,1 |
Aðrar vörur | 15,5 | 23,9 | 54,2 |
Innflutningur alls cif | 761,5 | 932,0 | 22,4 |
Matvörur og drykkjarvörur | 80,0 | 88,0 | 10,0 |
Hrávörur og rekstrarvörur, ót.a. | 230,2 | 268,3 | 16,6 |
Eldsneyti og smurolíur | 57,8 | 64,4 | 11,4 |
Fjárfest.vörur (þó ekki flutn.tæki) | 166,9 | 212,8 | 27,5 |
Flutningatæki | 101,4 | 144,9 | 42,9 |
Neysluvörur ót.a. | 124,6 | 153,3 | 23,1 |
Vörur ót.a (t.d. endursendar vörur) | 0,6 | 0,3 | -57,2 |
Vöruskiptajöfnuður | -156,5 | -211,2 |