Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir ágúst 2019 nam fob verðmæti vöruútflutnings 44,8 milljörðum króna og fob verðmæti vöruinnflutnings 57,0 milljörðum króna. Vöruviðskiptin í ágúst, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 12,2 milljarða króna. Í ágúst 2018 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 18,8 milljarða króna á gengi hvors árs. Skip og flugvélar hafa óveruleg áhrif á niðurstöður að þessu sinni.

Í ágúst 2019 var verðmæti vöruútflutnings 3,0 milljörðum króna lægra en í ágúst 2018, eða 6,2% á gengi hvors árs. Mest var lækkunin í viðskiptum með iðnaðarvörur og sjávarafurðir.

Verðmæti vöruinnflutnings í ágúst 2019 var 9,5 milljörðum króna lægra en í ágúst 2018, eða 14,3% á gengi hvors árs. Samdráttur í innflutningi var á öllum liðum milli tímabila en mestur var hann í innflutningi á hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti og smurolíum.

Hafa skal í huga að hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Niðurstöður gætu breyst eftir endurskoðun í lok mánaðar.

Útflutningur, innflutningur og vöruviðskiptajöfnuður 2015–2019

Talnaefni