FRÉTT VERÐLAG 28. NÓVEMBER 2017

Í frétt Hagstofu Íslands frá 11. september 2017 var greint frá því að stofnunin myndi rannsaka áhrif breytinga á innkaupum heimila á vísitölu neysluverðs vegna nýrra verslana sem tekið hafa til starfa og meta hvort tilefni væri til að gera breytingar á henni af þeim sökum.

Þessi athugun hefur nú verið gerð og var sérstaklega stuðst við upplýsingar úr rannsókn á útgjöldum heimilanna fyrir árið 2017, þar sem þátttakendur veita Hagstofu Íslands upplýsingar um hvar vörur eru keyptar með því að afhenda kvittanir úr innkaupum. Með þeim hætti má fylgjast með breytingum á innkaupum neytenda milli verslana. Til viðbótar var litið til annarra tiltækra heimilda um innkaup, s.s. um veltu fyrirtækja. Auk þess var verðmælingum fjölgað og tímaraðir greindar sérstaklega.

Niðurstaðan er sú að heimili landsins hafi breytt innkaupum sínum í nokkrum mæli og sýnt nýjum verslunum áhuga. Á sama tíma hafa verslanir sem fyrir eru á markaði lækkað verð á ýmsum vörum til að mæta aukinni samkeppni og þannig stuðlað að nýju markaðsjafnvægi. Nokkur vandi er að vinna áreiðanlegan samanburð milli verslana. Til dæmis má benda á að vöruúrval og pakkningastærðir eru ekki að fullu sambærilegar milli verslana.

Við samanburð á verði í nýjum verslunum og eldri verslunum samkvæmt þeim gögnum sem tiltæk eru nú virðast áhrifin af breytingunum komin fram í vísitölu neysluverðs.

Grunnur vísitölu neysluverðs er endurskoðaður í mars ár hvert og mun Hagstofa Íslands við næstu  grunnskipti í mars 2018 endurmeta innbyrðis vægi verslana í viðskiptum heimila út frá ítarlegri heimildum en nú eru tiltækar og taka tillit til breytinga á innkaupamynstri eins og við á.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1200 , netfang neysluverd@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.