Hagstofa Íslands hefur gefið út greinargerð um meðhöndlun bjaga í vísitölu neysluverðs á Íslandi.

Þar er dregið saman í stuttu máli helstu efnisatriði sem koma við sögu í umfjöllun um bjaga sem tengjast vísitölu neysluverðs. Umfang bjaga í vísitölu neysluverðs á Íslandi er ekki þekkt en í greinargerðinni er fjallað um aðferðir sem tiltækar eru og hafa verið þróaðar í alþjóðlegri samvinnu til að lágmarka áhrif bjaga á hverjum tíma. Fjallað er um fjórar tegundir bjaga, tilurð þeirra og leiðir til að eyða þeim. Þrjár tegundir bjaga (bjagi vegna staðkvæmni, bjagi vegna innkaupa heimila og bjagi vegna nýrra vara og þjónustu) eru háðar neysluhegðun neytenda, en sú fjórða tengist gæðum vöru eða þjónustu sem neytt er. Verðbreytingar, sem mælast kerfisbundið of háar eða of lágar í samanburði við niðurstöðu sem þeim er ætlað að mæla, eru bjagaðar. Bjagi er breytileg stærð sem getur aukist og dregist saman, verið jákvæður eða neikvæður. Hagstofa Íslands gerir ráð fyrir að bjagi sé fyrir hendi í mælingum á vísitölu neysluverðs á Íslandi.

Bjagi vegna staðkvæmni
Stafar af því að ekki er tekið tillit til þess að neytendur breyta neysluvali sínu og kaupi til dæmis vöru og þjónustu sem hefur lækkað hlutfallslega í stað vöru og þjónustu sem hefur hækkað hlutfallslega. Þessi bjagi nær bæði yfir grunnliði vísitölu (efra lag) og grunn (neðra lag). Efra lag: Niðurstöður yfir 10 ára tímabil á Íslandi benda til að bjagi geti verið að meðaltali á bilinu -0,01% til +0,02%, lægsta mæling á ári er -0,8% og hæsta mælingin +0,9%. Neðra lag: Ekki er vitað hver bjaginn er. Hagstofan notar tvær útreikningsaðferðir sem leiðrétta báðar fyrir staðkvæmni, afburðavísitölur og margfeldismeðaltal. Þær ná yfir 77% af grunni vísitölu neysluverðs og af þeim ástæðum er ekki gert ráð fyrir að þessi bjagi sé mikill.

Bjagi vegna innkaupa heimila
Með breytingum verslunarhátta koma til sögunnar verslanir með lægra verð. Neytendur bregðast við því og ef þeir kaupa sömu vörur annars staðar, á lægra verði, þarf að taka tillit til þess í vísitöluútreikningi með beinni gæðaleiðréttingu. Niðurstaða: Bjagi er 0%. Bjagi vegna innkaupa heimila hefur verið leiðréttur árlega frá árinu 2001. Heildarlækkun vísitölu neysluverðs árin 2001-2018 af þessum sökum nemur um 0,75%.

Bjagi vegna nýrra vara og þjónustu
Þegar nýjar eða endurbættar vörur og þjónusta koma á markað er ekki tekið tillit til þeirra í vísitöluútreikningi né heldur ábata neytenda af þeim. Niðurstaða: Ekki er vitað hver bjaginn er. Nýjar vörur eru teknar kerfisbundið inn í útreikning. Brúun er aðferðin sem aðallega er notuð og ætti að tryggja að tekið sé tillit til verðsögu vörunnar. Ekki er gert ráð fyrir að þessi bjagi sé mikill.

Bjagi vegna vörugæða
Þegar skipta þarf út vörum og þjónustu í vísitöluútreikningi er ekki tekið tillit til breytinga á gæðum þeirra. Þar getur verið um að ræða að ekki sé tekið eftir breytingum á gæðum eða að réttar leiðréttingar vegna gæðabreytinga séu ekki gerðar.

Niðurstaða: Ekki er vitað hver bjaginn er. Hagstofan beitir áþekkum aðferðum við gæðaleiðréttingar og aðrar hagstofur og margar gæðaleiðréttingar beinar eða óbeinar eru gerðar við hvern vísitöluútreikning en ekki er til yfirlit yfir þær. Brúun er helsta aðferðin sem notuð er. Óvissa er meðumfang gæðabreytinga sem ekki er tekið tillit til í útreikningi.

Meðhöndlun bjaga í vísitölu neysluverðs á Íslandi - Greinargerð