Eins og fram kom í fréttatilkynningu Hagstofu Íslands í gær (29.9.2016) um vísitölu neysluverðs í september er hluti af hækkun reiknaðrar húsaleigu tilkominn vegna leiðréttingar á þeim lið vístölunnar. Hagstofan tekur málið mjög alvarlega.

Frá og með mars 2016 og til og með september 2016 var reiknuð leiga vanmetin. Það hefur nú verið lagfært. Leiðréttingin á rætur að rekja til mistaka sem urðu til þess að reiknuð leiga hliðraðist svo að áhrif verðbreytinga mældust með eins mánaðar tímatöf.

Ekki er um að ræða uppsöfnuð áhrif heldur hliðrun á breytingum um einn mánuð í senn. Án þessarar villu hefði mánaðarbreyting vísitölunnar nú í september verið 0,21% í stað 0,48%. Mismunurinn er 0,27 prósentustig. Áhrif á allan almenning eru hverfandi og verða fæstir lántakendur varir við breytinguna nema að litlu leyti.

Hagstofa Íslands bregst við með því að leiðrétta liðinn og með því að upplýsa notendur eins fljótt og mögulegt er. Það var gert um leið og frétt um vísitölu neysluverðs í september var birt á vef Hagstofunnar. Niðurstöður útreiknings eru leiðréttar í einu mæligildi en eldri gildum verður ekki breytt. Því verður ekki séð að breytingar verði á skuldbindingum aftur í tímann.

Hagstofu Íslands þykir miður að mistök hafi orðið og reynir eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Hagstofan fer yfir verklýsingar er snúa að vísitölu neysluverðs og mun taka verklag til endurskoðunar í kjölfarið eins og þörf krefur.