Samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum fyrir árið 2014 var magn vergrar landsframleiðslu á íbúa á Íslandi 21% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 28 (ESB28) árið 2014. Í samanburði 37 Evrópuríkja (ESB28 auk Íslands, Noregs, Sviss,Tyrklands, Svartfjallalands, Serbíu, Bosníu-Hersegóvínu, Albaníu og Makedóníu) var Ísland 10. í röðinni yfir verga landsframleiðslu á íbúa sama ár.
Magn vergrar landsframleiðslu á íbúa var mest í Lúxemborg 163% yfir meðaltali ESB28 en þar á eftir kom Noregur þar sem verg landsframleiðsla á íbúa var 79% yfir meðaltali ESB28. Lúxemborg sker sig úr hópnum en líta verður til þess að fjöldi fólks vinnur og verslar í landinu og leggur til landsframleiðslunnar, en býr utan landsins og telst því ekki til íbúafjöldans.
Magn einstaklingsbundinnar neyslu á mann á Íslandi var 18% yfir meðaltali ESB28 samkvæmt fyrstu bráðabirgðaniðurstöðum fyrir árið 2014. Þar var Ísland 6. í röð landanna 37 en Lúxemborg í fyrsta sæti.
Hagstofa Íslands tekur þátt í samstarfi hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, og OECD um útreikning jafnvirðisgilda (PPP) til þess að meta með reglubundnum hætti magntölur vergrar landsframleiðslu í þátttökuríkjunum.
Frétt Eurostat
Gagnasafn Eurostat um jafnvirðisgildi (PPP)