FRÉTT VERÐLAG 20. JÚNÍ 2018

Magn vergrar landsframleiðslu á mann á Íslandi árið 2017 var 30% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 28 (ESB28) samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. Ísland var í fimmta sæti af 37 Evrópuríkjum (ESB28 auk Íslands, Noregs, Sviss, Tyrklands, Svartfjallalands, Serbíu, Bosníu-Hersegóvínu, Albaníu og Makedóníu).

Magn vergrar landsframleiðslu á mann árið 2017 var hæst í Lúxemborg, 153% yfir meðaltali ESB28, en þar á eftir kom Írland þar sem verg landsframleiðsla á mann var 84% yfir meðaltali ESB28. Lúxemborg sker sig úr hópnum en líta verður til þess að fjöldi fólks vinnur og verslar í landinu og leggur til landsframleiðslunnar en býr utan þess og telst því ekki til íbúa.



Magn einstaklingsbundinnar neyslu á mann á Íslandi var 17% yfir meðaltali ESB28 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fyrir árið 2017. Þar var Ísland í sjötta sæti af 37 Evrópuríkjum og var Noregur í fyrsta sæti, 32% yfir meðaltali ESB28.

Hagstofa Íslands tekur þátt í samstarfi hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um útreikning jafnvirðisgilda (PPP). Þau eru notuð til að umreikna hagrænar stærðir til sambærilegs verðlags svo unnt sé að bera saman rauntölur á milli landa.

Jafnvirðisgildi má jafnframt nota til að bera saman verðlag milli landa. Taflan hér að neðan sýnir samanburð á verðlagi í Evrópuríkjunum 37 fyrir einkaneyslu heimila og sex undirflokka hennar. Verðlag einkaneyslu heimila í ríkjunum 37 var hæst á Íslandi árið 2017, 66% yfir meðaltali ESB28. Í fjórum af sex undirliðum var verðlag hæst á Íslandi. Undantekningarnar eru annars vegar matur og drykkur og hins vegar farartæki. Verðlag á mat og drykk var hæst í Sviss, þar á eftir kom Noregur og Ísland var í þriðja sæti. Verðlag á farartækjum var hæst í Danmörku, þar á eftir komu Noregur og Ísland.

Verðlagsvísitölur fyrir einkaneyslu, bæði vörur og þjónustu 2017, ESB28=100
  Einkaneysla heimila Matur og óáfengir drykkir Áfengi og tóbak Föt Farartæki Raftæki Hótel og veitingahús
Ísland 166 156 228 171 131 148 186
Sviss 159 168 125 153 100 95 163
Noregur 143 161 226 129 139 113 165
Danmörk  142 150 123 130 144 110 151
Lúxemborg 127 123 91 107 101 98 112
Írland  125 117 174 108 111 86 122
Svíþjóð 125 126 127 134 98 107 146
Finnland  122 118 139 121 111 105 129
Bretland 117 93 157 87 98 93 107
Holland 112 103 109 111 121 103 112
Belgía 111 112 104 113 105 106 119
Frakkland 109 112 105 105 105 110 118
Austurríki 108 125 93 105 103 105 105
Þýskaland 105 108 96 105 100 99 110
Ítalía 101 112 97 106 102 105 105
Spánn 92 95 86 92 89 99 86
Kýpur 88 107 88 100 88 109 93
Portúgal  85 96 90 98 111 109 77
Slóvenía  85 100 82 97 92 100 82
Grikkland 84 104 95 100 93 100 82
Malta  82 110 100 99 103 107 81
Eistland 79 94 93 115 86 98 85
Lettland 72 95 84 104 85 96 82
Tékkland 69 86 74 99 82 92 60
Slóvakía  69 91 72 105 81 101 76
Króatía 67 96 73 101 94 108 73
Litháen 65 82 80 105 84 97 69
Ungverjaland 62 82 70 84 89 95 61
Pólland  56 65 71 88 84 89 74
Svartfjallaland 55 79 63 102 84 97 58
Tyrkland 53 79 77 54 105 89 63
Albanía  52 75 54 97 79 106 40
Bosnía-Herzegovína 52 75 53 88 84 106 55
Rúmenía 52 62 69 92 83 95 53
Serbía  51 72 52 93 85 108 51
Búlgaría  48 73 56 80 86 93 45
Makedónía 47 58 41 81 90 103 43

Frétt Eurostat 
Gagnasafn Eurostat um jafnvirðisgildi (PPP)

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.