Hagstofa Íslands undirbýr tvíþætta breytingu á útreikningsaðferð vísitölu byggingarkostnaðar sem mun koma til framkvæmda við útreikning vísitölunnar í janúar 2022.

Annars vegar mun vísitala byggingarkostnaðar miðast við verðlag án virðisaukaskatts, en hætt verður að miða við verðlag byggingaraðfanga með virðisaukaskatti. Hins vegar mun Hagstofan taka í notkun nýja gagnaheimild við mælingu á vinnulið vísitölunnar. Nýja heimildin er launarannsókn Hagstofunnar þar sem mældur er launakostnaður aðila sem starfa í byggingariðnaði. Með þessu er horfið frá mati á launum byggðum á lágmarkstöxtum úr kjarasamningum.

Um er að ræða nauðsynlegar umbætur á mæliaðferð vísitölunnar. Innleiðing nýju aðferðanna mun ekki sem slík hafa áhrif til hækkunar eða lækkunar á vísitölu byggingarkostnaðar.

Á sama tíma verður birting vísitölu byggingarkostnaðar eingöngu á útreikningstíma en birting á gildistíma, sem rekja mátti til ákvæða þeirra laga sem falla brott um áramótin, verður felld niður.

Hagstofa Íslands greindi fyrst frá þessum breytingum í frétt 20. maí 2021 en þann 11. maí 2021 voru samþykkt lög á Alþingi (43/2021) um brottfall núgildandi laga um vísitölu byggingarkostnaðar (42/1987). Núgildandi lög um vísitölu byggingarkostnaðar munu því falla úr gildi 31. desember 2021. Frá næstu áramótum mun aðferðafræði vísitölunnar falla undir lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163 frá 2007.

Hagstofa Íslands vinnur með notendum að kynningu á breytingunni og býður notendum sem vilja fylgjast sérstaklega með að skrá sig á póstlista með því að senda eftir því sem við á nafn tengiliðar, nafn fyrirtækis, símanúmer og netfang á byggingarvisitala@hagstofa.is.