FRÉTT VERÐLAG 28. JÚNÍ 2005

Gefin hafa verið út Hagtíðindi með niðurstöðum úr rannsókn á útgjöldum heimilanna árin 2001-2003. Niðurstöður eru sundurliðaðar eftir búsetu, heimilisgerð, tekju- og útgjaldahópum auk þess sem heildarniðurstöður eru bornar saman við útgjaldarannsóknina 2000-2002. Þá er í heftinu að finna ýmsar upplýsingar um heimilin í landinu, svo sem um húsnæði, tækjaeign, áskriftir o.fl.

Í þessari útgáfu eru birtar ráðstöfunartekjur þeirra heimila, sem þátt tóku í rannsókninni. Samanburður er gerður við tekjur heimila í neyslukönnuninni árið 1995. Meðalráðstöfunartekjur heimilis hafa hækkað um 71%, jafnmikið og meðalatvinnutekjur á mann en launavísitala hefur hækkað um 72% á sama tímabili og vísitala neysluverðs um 31,2%. Heimilistekjurnar og -útgjöldin eru háð fjölda heimilismanna og getur því gagnast betur að skoða útgjöldin á mann. Ráðstöfunartekjurnar hafa hækkað umfram atvinnutekjur og launavísitölu ef tekið er tillit til þess að heimilin hafa minnkað; ráðstöfunartekjur á mann hafa hækkað um 82% frá 1995 til 2003.

Samanburður á hæstu og lægstu tekjuhópunum sýnir að í þeim fjórðungi, þar sem tekjur eru hæstar voru  útgjöld á mann 21% hærri en í þeim  fjórðungi þar sem tekjurnar voru lægstar  en tekjurnar 118% hærri.

Niðurstöður eru einnig birtar eftir heildarútgjöldum, skipt í fjóra hópa. Þau heimili sem mest útgjöld hafa eyða 135% meira en þau sem minnstu eyða en tekjur þeirra eru 34% hærri.

Í úrtaki voru um 3.500 heimili, 1.915 þeirra tóku þátt í rannsókninnni og var svörun því um 54%.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru meðalneysluútgjöld heimilis á ári um 3,5 milljónir króna eða nálægt 300 þúsund krónum á mánuði. Meðalheimilið telur 2,62 einstaklinga samanborið við 2,68 einstaklinga í rannsókninni árin 2000-2002.

Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2001-2003 - útgáfa

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.