FRÉTT VERÐLAG 22. FEBRÚAR 2022

Mikilvægt er að hafa í huga, þegar rætt er um vísitölu neysluverðs, að hún er einfaldlega mælikvarði á verðbreytingar útgjalda heimilanna í landinu sem Hagstofa Íslands reiknar út í samræmi við lög um vísitölu neysluverðs. Hins vegar er fyrirkomulag verðtryggingar ekki á borði Hagstofunnar.

Hagstofa Íslands telur mikilvægt að tryggja gegnsæi varðandi þær aðferðir sem notaðar eru við útreikning á vísitölu neysluverðs og styðst við alþjóðlega viðurkenndar aðferðir í þeim efnum. Meginmarkmið við mælingu vísitölunnar er að tryggja vandaða og ábyggilega mælingu á þeim breytingum sem verða á verðlagi einkaneyslu í landinu. Vísitölu neysluverðs er fyrst og fremst ætlað að sýna breytingar á neyslukostnaði heimilanna og er hún meðal annars notuð til þess að reikna kaupmátt launa og er mikilvægur mælikvarði á þróun lykilstærða í efnahagslífinu.

Fyrirkomulag verðtryggingar er ákveðið í lögum um vexti og verðtryggingu sem stjórnmálamenn taka ákvörðun um. Hagstofa Íslands reiknar margar vísitölur og þar á meðal vísitölu neysluverðs, bæði með og án húsnæðis. Sé vilji til þess að breyta verðtryggingu fjárskuldbindinga er Alþingi í lófa lagið að breyta lögum um vexti og verðtryggingu óháð þeirri aðferðarfræði sem beitt er við að reikna vísitölu neysluverðs.

Í tengslum við gerð kjarasamninga, sem undirritaðir voru 3. apríl 2019, gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu þar sem meðal annars var kveðið á um að gerð skyldi athugun á þeirri aðferðafræði sem Hagstofa Íslands notar við útreikning vísitölu neysluverðs. Skipaður var starfshópur um þá athugun og fenginn einn færasti sérfræðingur á þessu sviði til þess að vinna greininguna. Samkvæmt niðurstöðu hennar, sem birt var 19. júní 2020, er aðferð Hagstofunnar í fullu samræmi við alþjóðlegar aðferðafræðilýsingar.

Skýrslu starfshópsins, sem skipaður var fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, BHM, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, forætisráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands auk Hagstofunnar, má finna á vef Stjórnarráðsins.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1200 , netfang neysluverd@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.