FRÉTT VERÐLAG 26. MARS 2020

Mæling og útreikningur á vísitölu neysluverðs í mars gengur eðlilega fyrir sig og hefur hvorki orðið fyrir áhrifum af þeim neysluaðlögunum sem landsmenn ganga nú í gegnum vegna COVID19-veirunnar né viðbrögðum stjórnvalda til að halda aftur af útbreiðslu hennar. Það liggur á hinn bóginn fyrir að áskoranir munu koma fram við mælingu vísitölu neysluverðs í apríl og áfram á meðan ástandið varir.

Ekki er þó að vænta að mæling Hagstofunnar komi til með að sýna skyndilegt stökk í neysluflokkum þar sem viðskipti eru lítil eða engin. Til stendur að birta sérstaka síðu á vefsíðu stofnunarinnar á næstunni þar sem leitast verður við að svara þeim spurningum sem vænta má að brenni á almenningi vegna þróunar vísitölu neysluverðs í ljósi þess ástands sem ríkir í þjóðfélaginu um þessar mundir.

Þær áskoranir sem um ræðir felast í því að varnaraðgerðir stjórnvalda hafa áhrif á framboð, aðgengi og kaup á neysluvörum og þjónustu. Fyrstu merkin sáust í flugþjónustu og í hótel- og veitingarekstri í framhaldinu. Vegna lokunar samkomustaða og ýmissrar starfsemi með tilliti til sérstakrar smithættu verða nú ýmsar vörur og þjónusta tímabundið ófáanlegar. Þrátt fyrir þetta verður vogum vísitölu neysluverðs ekki breytt af þessum ástæðum enda eru neyslubreytingarnar tímabundnar og munu ganga til baka þegar takmörkunum verður aflétt af samfélaginu.

Náin samvinna við aðrar hagstofur í Evrópu
Hagstofa Íslands mun verðmeta vörur og þjónustu sem verða fyrir áhrifum aðgerðanna, en val á aðferðum við verðmat er bundið alþjóðlegum stöðlum. Hagstofa Íslands vinnur í samstarfi við hagstofur í allri Evrópu og Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, að samræmdri nálgun við verðmat á vörum og þjónustu sem eru í takmörkuðu framboði eða ófáanlegar enda eru viðfangsefnin þau sömu í öðrum löndum. Greint verður betur frá þeim aðferðum sem beitt verður við fyrsta tækifæri.

Hagstofan mælir verðlag eins nákvæmlega og stofnuninni er unnt við þær aðstæður sem eru uppi hverju sinni. Við óvenjulegar aðstæður, þar sem fram koma mikil frávik frá eðlilegri verðþróun, er tekið á því sérstaklega. Því er þess ekki að vænta að mæling Hagstofunnar komi til með að sýna skyndilegt stökk í neysluflokkum þar sem viðskipti eru lítil eða engin sem fyrr segir.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1200 , netfang neysluverd@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.