FRÉTT VERÐLAG 20. MAÍ 2021

Vísitala byggingarkostnaðar, mæld og reiknuð um miðjan maí 2021, er 154,1 stig (desember 2009=100) og hækkar um 0,3% frá fyrri mánuði. Innlent efni hækkaði um 0,7% (áhrif á vísitölu 0,3%). Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 4,4%. Í samræmi við lög um vísitölu byggingarkostnaðar nr. 42 frá 1987 gildir vísitalan í júní 2021.

Nýtt lagaumhverfi fyrir byggingarvísitölu frá 1. janúar 2022
Þann 11. maí 2021 voru samþykkt lög á Alþingi um brottfall núgildandi laga um vísitölu byggingarkostnaðar sem taka gildi 1. janúar 2022 og fellur þá aðferðafræði vísitölunnar undir lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163 frá 2007. Fram að næstu áramótum verða lög um vísitölu byggingarkostnaðar hins vegar áfram í gildi og vístalan mæld og reiknuð á grundvelli þeirra.

Með þessari lagabreytingu verður lagaumhverfi byggingarvísitölunnar í samræmi við fyrirkomulagið á hinum Norðurlöndunum þar sem vísitölur heyra undir hagstofulög í stað sérlaga. Þá mun Hagstofa Íslands enn fremur geta unnið að nauðsynlegum umbótum á aðferðafræði vísitölunnar.

Komið hefur fram í undirbúningi nýsettra laga að Hagstofa Íslands horfir einkum til tveggja umbótaþátta fyrir mælingu vísitölunnar í janúar 2022. Annars vegar að vísitala byggingarkostnaðar miðist við byggingarkostnað án tillits til virðisaukaskatts og hins vegar að mæling launakostnaðar í vísitölu byggingarkostnaðar verði byggður á launarannsókn Hagstofunnar.

Enn fremur verður sú breyting þann 1. janúar 2022 að 4. grein laga um gatnagerðargjald nr. 153 frá 2006 mun ekki lengur vísa til laga um vísitölu byggingarkostnaðar.

Frekari kynningar verða á fyrirhuguðum breytingum þegar nær dregur gildistöku nýsettra laga.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1200 , netfang byggingarvisitala@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.